Þessar framhaldsmyndir eru betri en þær fyrri

Kvikmyndalistformið hefur nú verið til í á annað hundrað ár og enn virðist fólk vera þeirrar skoðunar að framúrskarandi framhaldsmyndir séu fágætar.

Góð framhaldsmynd er oftast nær verk sem byggir ofan á það sem stillt var upp í forveranum, tálgar út nýjar hugmyndir og fer helst í eigin áttir án of margra kóperinga.

Áður en dæmi verða tekin með áherslu á eingöngu ‘mynd númer tvö’ í umræddum bálkum, skulum við strax afgreiða þessa titla sem flestir virðast gúddera. Það hefur allur mögulegur fjandi verið sagður um eftirfarandi 8 titla og skulum við þess vegna renna snöggt í gegnum þá. Þetta eru myndir sem hafa í áraraðir þótt sterkari en „originalinn“ en litlu þarf að bæta þar við:

The Godfather: Part II, Terminator 2, Toy Story 2, Spider-Man 2, From Russia with Love, The Dark Knight, Captain America: The Winter Soldier. o.fl. Enn þykir líka umdeilt hvort Aliens sé raunverulega betri en Alien.

Það er enn ókláruð umræða, en…

Yfir í lítilmagnana…

Addams Family Values

Barry Sonnenfeld stóð sig prýðilega með fyrri myndinni og fann leið til að halda sig við fíling gömlu sjónvarpsþáttanna. Stærsti galdurinn lá í glæsilega samsettum leikhópi, en handritið hélt ekki alveg fluginu sem hópurinn átti skilið. Addams Family Values er annars vegar miklu hnitmiðaðri, fyndnari og prakkaralegri og það sést langar leiðir hvað leikararnir hafa fundið sig miklu betur í hlutverkunum (Raul Julia, Anjelica Houston og Christina Ricci eru gjörsamlega fullkomin á þessum velli) og leikstjórinn sömuleiðis. Addams Family Values einfaldlega rokkar og fylgja setu áhorfandans alls konar týpur af prakkaraglotti.


Babe: Pig in the City

George Miller er einn ruglaður og ævintýralega djarfur sögumaður. Gleymum öllu því í smástund sem hann hefur dundað sér að í sandinum með Mad Max-myndunum eða áróðurskenndu snjósýrunni sem hétu Happy Feet 1 og 2, sem báðar voru smábarnalega flöffí en í senn undarlega dökkar, en splæstu þessu tvennu ekki sérlega vel saman.

Babe: Pig in the City sýnir þó betur hvað býr í þessum manni og er ein vanmetnasta, súrasta og fullorðinslegasta „krakkamynd“ allra tíma, auk þess að vera magnaðasta leikna mynd sem til er um talandi dýr. Að vísu eru fæstar þeirra eitthvað til að hrópa húrra fyrir.

Reyndar hafa báðar Babe-myndirnar alltaf þótt vera frábærar fjölskyldumyndir sem taka litríka og hjartahlýja nálgun á eitthvað sem er í rauninni ósköp niðurdrepandi í tilvera ólíkra dýra. Sú fyrri hlaut á sínum tíma verðskuldað lof og Óskarstilnefningar, enda með sætt, huggulegt feel-good gildi, og þó að titilpersónan gangi í gegnum það stress hálfa myndina að vera mögulega étin eru dekkri skuggar hennar ekki beint sálarskemmandi fyrir yngstu áhorfendur. Hinir fullorðnu sjá snjalla túlkun á alvarleikanum en umfram allt gengur hún upp sem notaleg lítil perla.

Í Pig in the City er jarðbundinni mannaveröld kastað út um gluggann og stigið er alveg til botns með fantasíu/barnabóka-fílinginn með allt önnur þemu til umfjöllunnar. Það vantar ekki samfélagsrýni eða kríteríu á manneskjulegt – og vissulega dýrslegt – eðli, en aldrei er samt matreitt með neinni predikun; bara extrím krúttleika, hæfilegum skuggatöfrum, magnaðri umgjörð, óforskammaðri ýktri frásögn og dúndurfjörugu skemmtanagildi.


Bad Boys II

Stærri, sturlaðri, yfirdrifnari, andstyggilegri og almennt séð þrefaldur skammtur af öllu því sem fyrri myndin kastaði fram – eða sprengdi. Bad Boys II er táknmynd alls þess besta og glataðasta við Michael Bay, en samsetningin á hasarveislunni í þessari ræmu er dúndurmögnuð, kaótísk og klikkuð.

Með fyrri myndinni var Bay rétt að leika sér að eldinum, en með framhaldinu skýtur hann öllum flugeldunum upp eins og snælduóður, umræðuverður og hörkuduglegur brennivargur listformsins.


Batman Returns

Jú jú, The Dark Knight er án efa besta og myrkasta Batman-mynd sem hefur nokkurn tímann litið dagsins ljós. En ef þetta snýst um hvaða mynd um Leðurblökumanninn er sú kaldasta, óvenjulegasta, grimmasta og eymdarlegasta, þá held ég að Batman Returns sé ótvíræður bikarmeistari. Það er kannski auðvelt að merkja Batman Returns sem betri myndina þegar forverinn er máttlaus og fullmikið lagt á Jack Nicholson til að bera hana uppi, en hér er aldrei dauð sena. Framvindan er of blætiskennd og rugluð til að skilja ekki eitthvað eftir sig að lágmarki og Danny Elfman hefur sjaldan verið í jafn óperatískum ham.

Síðan er hún auðvitað fantagóð jólamynd, gleymum því ekki!


Before Sunset

Hér er eitthvað sem ég kann alltaf að meta: litlar framhaldsmyndir sem gerðar eru af eldmóði til að segja nýja sögu og þróa góða karaktera. Framhaldsmyndir sem eru ekki gerðar af peningagræðgi heldur umhyggju aðstandenda.

Before Sunrise var ekki mynd sem beinlínis öskraði á framhald (og það bað enginn um svoleiðis heldur). Þvert á móti er hún fullkomin eins og hún er, en sjálfur Richard Linklater ákvað með stjörnum sínum, Ethan Hawke og Julie Delpy, að hægt væri kannski að bæta einhverju við hana, níu árum síðar.

Hér er áfram stutt við einfalda uppsetningu, lúmskt en marglaga handrit sem myndar ofsalega nána og frábærlega hreinskilna ástarsögu – eða réttara sagt, sögu um rómans í raunsærri bíóheimi en vanalega er stillt upp. Hefði Sunset mistekist hjá Linklater, hefði dúóið getað skemmt fyrri myndina um leið, en tríóið gerði hana á hárréttum stað í lífinu, með hárréttu hugarfari.

Báðar (og í raun allar þrjár) myndirnar eru dýrlegar hver á sinn hátt en ég er aðeins hrifnari af flæðinu í þessari, tilfinningasveiflunum og sérstaklega endinum, sem gæti ekki passað betur.


Blade II

Wesley Snipes hefur sjaldan átt betri daga í pósum. Þarna er þó atvinnunördið og skrímslaunnandinn Guillermo Del Toro farinn að ná betri tökum á Hollywood leikvellinum og með útkomunni tekst honum að matreiða dýrindis B-geiraþvælu með þrusu skemmtanagildi. Fyrri myndin er hin fínasta (og með sterkara upphafsatriði), en Blade II er eitthvað allt annað partí.

Del Toro setur allt annan púls í hasarblaðavinkilinn og nördar yfir sig með hrærigraut af splatt-horror, slagsmálamynd og anime-teiknimynd. Stíllinn er blæðandi af kjánalegu og naglhörðu „töff-i“ og allir á skjánum eru vakandi, frá Wesley Snipes til Kris Kristofferson og Ron Pearlman. Brellurnar eldast vissulega hörmulega sums staðar, og hafa gert frá útgáfuári, en takturinn, keyrslan, stílblætið og subbuskapurinn svínvirkar og stemningin tekur forverann alveg í nefið – og þurrkar afturendann með þeirri Blade-mynd sem fylgdi á eftir.


Blade Runner 2049

Leikstjórinn Denis Villeneuve hefur á furðu skömmum tíma skipað sér í hóp þeirra betri í dag. Hann hefur ítrekað sýnt að hann hefur gott auga, þétt tök á uppbyggingu, tilþrifamiklum leikurum, óhugnanlegu andrúmslofti og hefur umfram allt tröllatrú á krafti kvikmyndarammans og er ófeiminn við að leika sér með langar þagnir. Allt þetta kemur bersýnilega að góðum notum í Blade Runner 2049.

Eðlilega er það ekkert grín að leggja í framhald á költ-klassík sem er afar sérstæður og íkonískur brautryðjandi og býr yfir vissri dulúð. Sennilega voru fleiri tugir leiða til þess að klúðra framlengingunni.

En, þvert gegn helstu bíólögmálum, kom út úr þessu vönduð, sóðalega gordjöss, áhrifarík og mannleg kvikmynd; snjöll, dáleiðandi, aðdáunarverð og lengi umræðuverð.

Framhaldsmyndinni tekst að vera virðingarvottur við forverann, stækka hann um leið, dýpka þemun, bæta við nýjum þemum og koma með úthugsaða framlengingu sem einnig stendur sjálfstæð. Þetta er tilfinningaríkari, umfangsmeiri og almennt sterkari mynd hvað handrit og persónusköpun varðar. Vissulega ekki sama byltingarbomban og sú fyrri en meira gefandi með eigin, sérhannaða hættinum.


The Bourne Supremacy

The Bourne Identity leyndi á sér, t.a.m. með stórgóðum bílaeltingaleik, snyrtilegri stílíseringu leikstjórans Doug Liman og Matt Damon smellpassaði í aðalhlutverkið – sem í kjölfarið útskrifaði hann formlega sem trúverðuga hasarstjörnu. Paul Greengrass kom af stað allt annarri dýnamík með sínum leikstjóratöktum (og kom jafnvel nokkrum leiðinlegum hristings-trendum af stað), en að því sögðu varð púlsinn í Bourne-myndunum töluvert hressari þegar hann tók við. Skemmtilegri framvinda, meiri hraði, reiði og ringulreið og með öllu móti betri „klæmax“. Supremacy er miklu meiri upplýsinga- og slagsmálarússíbani en fyrri myndin, og ágætis upphitun fyrir bestu myndina í þríleiknum. Eins og þessi „shaky cam“ tökustíll getur nú verið oft óþolandi, þá eru fáir jafn góðir að mastera þann ryþma og Greengrass.

Leitt er þó hvað fjórða myndin var fratleiðinleg. Báðar „fjórðu“ myndirnar!


Dawn of the Planet of the Apes

Rise of the Planet of the Apes átti sín fínu móment í annars ómerkilega bitlaustri upphafssögu, en Dawn (með tilheyrandi leikstjóraskiptum) tekur tóninn og yfirvofandi harmleikinn upp á allt annan gæðastall. Matt Reeves (Let Me In, The Batman) stígur þarna hraustur inn og hristir upp í öllu, auk þess að gleðja augað með eigin hæfileikum og radar fyrir kröftugum römmum. Svo er það listaverki líkast hvernig Reeves leyfir þögnum að undirstrika og styrkja frásögnina – taktík sem hann síðar notaði enn betur og oftar í þriðju myndinni. Grípandi stöff!


Desperado

Trúlega er smá svindl að nefna þessa, hvort hún gildir og hvaðeina. Þó hefur Robert Rodriguez sjálfur kallað þetta miðjumyndina í mexíkóvestra-þríleik sínum, eða spænskættuðu gerðinni af Dollaramyndum Leone. Af vinnubrögðum að dæma er þó erfitt að þræta fyrir það að El Mariachi hafi verið ein stór æfing hjá Rodriguez fyrir Desperado. Sömuleiðis er erfitt að ímynda sér veruleika þar sem Antonio Banderas er ekki flottari skjáhetja heldur en Carlos Gallardo, sem seinast gekk með gítarinn.

Með Desperado (beinu og óbeinu framhaldi af Mariachi) fékk Rodriguez fimm milljónir Bandaríkjadollara í hendurnar og þeytti út hasarveislu sem leit út fyrir að kosta fjórfalt meira. Bara fjör, byssó, bardagar, brandarar og ýktir töffarastælar. Næntís-þrusuvestri par excellance.


Evil Dead II

Sam Raimi sneri þarna aftur, reynslumeiri og ögn ruglaðri, með ofboðslega steikta blöndu af endurræsingu, framhaldi og endurgerð og hallar sér meira að ýktum, splatterdrifnum skrípafarsa án þess að slíta sig algjörlega frá horror-brögðunum.

Evil Dead II er algjörlega einstök og kom bæði þessum meinta Evil Dead fíling og ekki síður ómótstæðilega “einleik” Bruce Campbell nær eins konar bíógoðsögn.


Grease 2

Vinsældir eru ekki alltaf samasemmerki á gæði. Það er þó auðvitað skiljanlegt að upprunalega Grease sé almennt betur metin og langlífari (enda hafa sviðsræturnar líka eitthvað um það að segja). Öruggt er að undirstrika að lögin í upprunalegu Grease eru meira grípandi, ef til vill sígildari, en Grease 2 er betri myndin ef horft er til viðkunnanlegri sjarma, skárri efnistaka handrits, kemistríu skjápars og þeirri heljarinnar greddu sem ríkir yfir unglingahópi sögunnar (sem er vitaskuld að mestu samsettur úr fólki á þrítugs- og fertugsaldri). Skilaboðin í framhaldinu eldast líka ögn betur, Michelle Pfeiffer er eitt rjúkandi hlass af kúli og má kvikmyndasagan aldrei nokkurn tímann gleyma stuðlaginu ‘Reproduction’.


John Wick: Chapter 2

Það sem aðskildi John Wick að mörgu leyti frá týpískum B-hefndarmyndum – fyrir utan að sjálfsögðu vönduð vinnubrögð og helfókuseraðan Keanu, blæðandi kúli, eins og áður var nefnt – var einmitt þessi heimur sem myndin skapaði. En í fyrri kaflanum var Wick eins og jarðýta í hefndarhug, en mjög fáir þar áttu hvort sem er roð við reynslu hans og þjálfun.

Í öðrum og enn sterkari kaflanum er Wick-maskínan umkringd fullt af gæjum sem hafa hlotið sambærilega þjálfun, sem þýðir: meira kaos, erfiðari fantar, harkalegri högg og enn óútreiknanlegra fjör. Klæmaxinn í þessari mynd tekur lokasprettinn úr þeirri fyrstu í nefið og það hvernig hætturnar og hindranirnar magnast upp heldur blóðinu flæðandi léttilega út þessa tvo tíma, sama hversu þunnur efniviðurinn verður. Endirinn er líka nett djarfur, og öðruvísi.


Lethal Weapon 2

Skemmtilegri, flippaðri, afslappaðri, meira spennandi og á óútskýranlegan máta elskulegri en fyrri klassíkerinn. Sennilega voru Richard Donner, Mel Gibson, Danny Glover og aðrir aðstandendur bara komnir í sjálfsöruggara grúv. Ekki leiðinlegt heldur að fá dýnamískt skemmtilegan og hæfilega háfleygan Joe Pesci með í mixið.

Og jú, klósettsenan…


Mad Max 2 (e. The Road Warrior)

Príma dæmi um öfluga leið til að stera upp framleiðsluna og sögusviðið, auk þess að finna miklu ferskari snúning og bæta ofan á það sem á undan kom. Mad Max 2 var um mörg árabil ein skemmtilegasta og trylltasta eftirheimsendamynd allra tíma.

En síðar meir kom auðvitað Fury Road og skákaði þessa hasarræmu eins og ekkert væri eðlilegra.


Mamma Mia: Here We Go Again

Annað en sú upprunalega, þá er þessi mynd bara húrrandi æði og ekkert annað – alveg í gegn; ljúfsár en gegnumgangandi hress fögnuður lífs, ástar, sorgar og glimmersins. Fyrri Mamma Mia myndin er ekki alslæm en sú seinni undirstrikar allt sem forverinn náði ekki að mastera. Kvikmyndatakan og almennt koríógraffið poppar og dansar mun betur, lögin eru betur ofin inn í sandpappírssöguna, en galdurinn liggur líka í hlýrri, áhrifaríkari sál og traustari leikstjórn. Aðdáendur fyrri myndarinnar áttu margir erfitt með að taka (forsögu) framhaldið alveg í sátt vegna fjarveru Meryls Streep.

Á móti saknar undirritaður ekki Streep því Lily James kemur með heila sjarmafötu af stuðboltum og söngur Pierce Brosnan er lágmarkaður. En þó með fullri alvöru – Mamma Mia: Here We Go Again er stórkostleg flöff-skemmtun og hreinræktuð stemning ef viðkomandi er ekki með ofnæmi fyrir ABBA.


The Raid 2

„Meira af því sama“, „Less is more“ eða „Overkill“ eru hugtök sem eru þessari mynd algjörlega framandi, en það þurfti líka rosalega mikið til að toppa þá ótoppanlegu hasarveislu sem fyrri myndin var. En The Raid 2 er aðalpartíið í staðinn; miklu grimmari, stílískari bíómynd, öðruvísi í tón, með flóknari framvindu, meira drama og slettir öllu blóði sínu á 300% stærri striga, með miklu meiri fjölbreytni og er auk þess klukkutíma lengri. Hún tekur við nánast beint þar sem frá var horfið í fyrri myndinni og opnar svo fyrir umtalsvert breiðari söguþráð. Hún er dramatískt margslungnari og meira spennandi upp á rísandi „intense“ level. Þó innihaldið sé óneitanlega afsökun til að steypa saman hverri ofbeldisveislunni á eftir annarri, smellur þetta allt saman með góðu flæði, grípandi samræðum og vaxandi samúð og stuðningi til handa aðalhetjunni.

Ef réttlæta skal að Raid 2 sé ekkert annað en langdregið hasarklám þá geta fáir sagt annað en að það gerist varla ruglaðara eða meira djúsí en þetta. Meistaraflykki!


Fleiri dæmi:
Paddington 2, Magic Mike XXL, The Wolverine, Scream 2, Father of the Bride Part II, Friday the 13th Part 2