TÍAN: Svölustu atriði ársins 2010!

Ég, eins og líklegast margir aðrir, á bágt með því að trúa að þetta blessaða (bíó)ár sé við það að ljúka. Mér finnst það vera eitthvað svo stutt síðan ég kom með einhverja svaka ritgerð um þær 2010-myndir sem væri þess virði að hafa augun opin fyrir (getið séð hana hér). Það er samt alltaf jafn gaman að bera saman álit manns á bíómyndum í dag miðað við væntingarnar sem maður hafði, og þó svo að maður eigi enn eftir að sjá eina og eina tilvonandi Óskarsmynd þá getur maður alveg byrjað á því að týna saman þau augnablik sem skildu hvað mest eftir sig á árinu sem bráðum fer að ljúka.

Það sem ég ætla að gera fram að áramótum er að koma með ýmsa lista yfir 2010-mómentum. Fyrst ætla ég að fjalla um svölustu atriði ársins, síðan fyndnustu og svo að lokum kröftugustu. Ég enda svo að sjálfsögðu árið með því að koma með ýtarlegan topp- og botnlista. Frekar basic.

Ef þið lásuð fyrirsögnina eða málsgreinina hér á undan þá vitið þið hvað þessi litla grein snýst um. Ég tek það auðvitað fram að það sem hér er talið upp er einungis byggt á mínu persónulega áliti. Mér þætti samt vænt um að heyra sambærileg komment frá ykkur hér á opna spjallinu fyrir neðan. Þetta er nú kvikmyndavefur og þar af leiðandi á enginn einn aðili að komast upp með það að segja einungis sína skoðun. En tefjum þetta ekki neitt frekar. Hér koma:


(Ath. sumar myndir koma fram oftar en einu sinni – ekkert að því)

Og já… Ef þið hafið ekki séð þær myndir sem eru taldar upp, þá myndi ég frekar sleppa því að lesa textann sem fylgir með (mínus mynd nr. 9 – enginn spoiler þar). Hef ekki samviskuna í það að skemma fyrir ykkur þessi atriði áður en þið sjáið myndirnar sjálfar.

10. ÞARMAREIPIÐ
(Machete)

Ef Machete hefði boðið upp á fleiri senur í líkingu við þessa þá hefði hún komist í miklu hærra álit hjá mér. Í stað þess að vera hlaðin „badass“ fíling þá var hún bara hlaðin leiðindagöllum sem erfitt var að hundsa. Hins vegar er þessi sena gjörsamlega toppurinn á allri myndinni. Að sjá Danny Trejo sveifla sér á milli hæða á sjúkrahúsi haldandi utan um þarma er ekkert annað en stórfenglegt. Trejo er líka svo grimmur að maður kaupir hann alltaf sem harðhaus. Um leið og maður sá þetta vissi maður að það væri allt annað en kúl að fokkast í þessum mexíkana.

Tvennt böggandi þó: Við fengum aldrei að sjá neitt jafn töff eftirá (þetta gerðist rétt svo í kringum fyrsta hálftíma myndarinnar) og svo var þessi sena sýnd í einum trailernum.

9. LIGHTCYCLE-KEPPNIN: PIMPAÐA ÚTGÁFAN
(Tron Legacy)

Af öllum myndum sem hafa komið út á árinu þá er Tron Legacy án efa sú langflottasta. Þrívíddin gleypur mann líka inn í þennan heim og hönnunin í bland við andrúmsloftið gerir það að verkum að maður á erfitt með að líta frá tjaldinu. Aðstandendur hafa staðið sig frábærlega í því að massa upp Tron-stílinn og gera hann svalan, þótt það þurfti í rauninni ekki mikið til. Hin svokallaða Lightcycle sena úr fyrstu myndinni var sú eftirminnilegasta og það má hiklaust segja það sama um framhaldið, nema núna er brautin 10x svalari og spennan meiri.

Alveg dásamleg brelluorgía og tónlistin gerir gott enn betra.

8. EINN Á MÓTI SJÖ Í KÖRFU
(The Expendables)

Að segja að Statham hafi verið svalasti durturinn í þessari mynd segir ansi mikið, en það þýðir ekki annað því það er dagsatt! Hann hefur oft átt sín augnablik en þegar þetta atriði kom í myndinni var ég við það að standa á fætur og kýla í loftið af spenningi. Hiklaust næstbesta „FOKK JÁ“ atriðið í allri myndinni.

7. „64 HIT COMBO“
(Scott Pilgrim vs. the World)

Ég gleymi aldrei stemmningunni sem var í sal 1 í Laugarásbíói þegar við héldum miðnæturforsýningu á Scott Pilgrim, en klappið varð aldrei öflugra en þegar fyrsti bardaginn hrökk í gang. Þrátt fyrir að vera steikt og ýkt á allan máta er þetta atriði massatöff og á sama tíma eitthvað svo skemmtilega öðruvísi. Aðeins snillingur eins og Egdar Wright gæti gert það að verkum að pjakkar eins og Michael Cera komist á svona topplista.

6. SATAN GENGUR INN Á BAR
(The A-Team)

Mjög stutt og kómísk sena, en vegna þess að þetta er Hr. Liam „ég-er-svalur-mannfjandi“ Neeson þá verður atriðið einhvern veginn ennþá betra og eftirminnilegra. Ég dýrka bara þá tilhugsun að Neeson hafi hér svindlað á dauðanum og svo djókað með það beint eftirá.

Taken 2? JÁ TAKK!

5. JACKIE CHAN „LEMUR“ KRAKKA
(The Karate Kid)

Þeir sem segja að ofbeldi leysi ekki neinn vanda hafa greinilega ekki séð fjölskyldumyndina The Karate Kid. Ég mun aldrei kalla endurgerðina frábæra, en þessi eina sena þar sem Jackie Chan nær að láta „vondu“ strákana lemja sjálfa sig er ekki langt frá því að vera einhvers konar gull.

4. HIT-GIRL MISSIR SIG
(Kick-Ass)

Chloe Moretz hefur aldeilis náð minni athygli. Fyrst stal hún senunni í (500) Days of Summer, svo Kick-Ass og síðan Let Me In. Stelpan er líka með þeim djarfari barnastjörnum sem sést hefur í langan tíma, og blóðbaðið sem hún skapar undir lokin á Kick-Ass er eitt af mörgum dæmum um það. Alveg frá því að hún labbar inn í bygginguna (þegar Ennio Morricone tónlistin heyrist í bakgrunni) þangað til titilkarakterinn kemur henni til hjálpar fáum við að fylgjast með gómsætu ofbeldi þar sem þessi litla stelpa gengur bersekersgang og virðist allan tímann vita hvað hún er að gera. Sú tilhugsun er bæði fáránlega svöl og nokkuð truflandi.

3. ÁRÁS Á BRYGGJUNA
(The Expendables)

Ó-JÁ! Það verður aldrei hægt að segja að Stallone og Statham kunni ekki að hefna sín með látum! Í þessari senu gefa þeir óvinum sínum eftirminnilegasta fokkjú merki sem ég hef séð á öllu árinu. Móment sem á klapp skilið í hvert sinn sem myndin fer í tækið.

2. BIG DADDY ER MAÐURINN!
(Kick-Ass)

Gæðahúðarsena nr. 2! Á þessum tímapunkti byrjaði Kick-Ass að sýna fram á það að hún væri ekki einungis þarna til að vera kómísk satíra á ofurhetjumyndir. Upp úr miðju tók myndin mjög myrka stefnu og tókst það svakalega vel upp, sérstaklega með þessu atriði, þar sem bálreiður Nic Cage hleypur í hvern mafíósann á eftir öðrum og rústar öllu á sama tíma. Lagið In the House in a Heartbeat eftir John Murphy (sem er hér spilað í aðeins rokkaðri útgáfu) gerir senuna líka margfalt dekkri og svalari.

1. „VÍÍÍÍÍ-SENAN“
(Inception)

Nolan kallinn fær heiðurinn á gæsahúðaatriði númer eitt á þessu ári. Þetta er einhver frumlegasta slagsmálasena sem ég hef á ævi minni séð í bíósal og framkvæmdin er ólýsanlega góð. Tónlistin gefur líka senunni mjög epískan blæ. Annars voru allar senurnar á „level 2“ í myndinni rosalega góðar.

En þar hafið þið það. Segið mér nú ykkar.
Bless í bili.

Kv.
T.V.
tommi@kvikmyndir.is)