Tilnefningarnar skoðaðar – Besta gaman- eða söngvamynd

Tilnefningarnar fyrir hvern flokk Kvikmyndaverðlauna Mynda mánaðarins og Kvikmyndir.is verða skoðaðar nánar, ein í einu næstu daga, til að hjálpa lesendum að glöggva sig á hverjum flokki fyrir sig. Fyrst verða tilnefningarnar fyrir bestu gaman- eða söngvamynd skoðaðar. Við höfum þetta í stafrófsröð, til að gæta sanngirni.

Get Him to the Greek
Myndin var auglýst sem „Hangover ársins í ár“, og þótti meira að segja eitt plakatið bera mjög keim af þeirri markaðssetningu. Hér er einnig um að ræða nokkurs konar spin-off eða sjálfstætt framhald af Forgetting Sarah Marshall, þar sem Aldous Snow, rokkstjörnupersóna Russells Brand, er önnur aðalpersónanna. Myndin náði þrátt fyrir þessar tengingar að skapa sér nafn á eigin forsendum, enda að mörgu leyti ólík þeim báðum.

Hot Tub Time Machine
Þetta er önnur „partímyndin“ í þessum flokki, en með allt öðrum blæ. Hér er spilað á 80‘s-nostalgíuna og vitnað hamslaust til mynda frá þeim tíma. John Cusack sannar það líka enn einu sinni í þessari mynd að hann á ekkert erfitt með að gera grín að sjálfum sér. Aðstandendurnir náðu líka að grípa athygli fólks með líklega einum skemmtilegasta titli ársins og í þokkabót að láta hugmyndina virka innan myndarinnar.

Kick-Ass
Þetta er Öskubuska ársins. Matthew Vaughn leikstjóri gerði myndina fyrir eigið fjármagn þar sem ekkert stúdíó vildi koma nálægt þessu verkefni, enda inniheldur myndin 11 ára afar orðljóta stelpu sem myrðir án þess að blikna. Og hún er einn af góðu gæjunum. Þegar myndin var svo sýnd á Comic-Con kepptust þessi sömu stúdíó við að yfirbjóða hvert annað til að fá að dreifa henni. Myndin sjálf náði svo að stimpla sig inn í unglingamenningu nútímans með öllu brjálæðinu.

The Other Guys
Will Ferrell komst aftur á flug í þessari mynd eftir nokkur skrýtin og mistæk ár. Sú ákvörðun að fá Mark Wahlberg til að leika gaur sem er jafnvel brjálaðri en persóna Wills reyndist vel, þar sem það leiddi af sér aðeins nýja nálgun á „Will Ferrell-grínmyndina.“ Myndin sjálf er svo næstum jafn súr og Anchorman, (sem er hrós, svona ef þið eruð ekki viss) og inniheldur tvær af skrautlegri aukapersónum ársins, sem Samuel L. Jackson og Dwayne Johnson höfðu greinilega ógeðslega gaman af að leika.

Scott Pilgrim vs. the World
Þessi mynd er nánast spegilmynd Kick-Ass. Á meðan sú mynd tekur ofurhetjuþemað og færir það rækilega inn í hversdaginn tekur Scott Pilgrim hina hversdagslegu dramatík ungmennisins og færir það í ofurmannlegan búning, þar sem tölvuleikjabardagar í raunveruleikanum, fólki kastað hundruði metra upp í loft, það breytist í smápeninga við að vera höggvið niður og vegan-ætur með yfirnáttúrulega hæfileika eru daglegt brauð.