Hollywood Reporter greindi frá því í gær að Toy Story 3 teiknimyndin sem frumsýnd var fyrr á þessu ári, sé orðin tekjuhæsta teiknimynd allra tíma, og slær þar með út Shrek 2 sem sat í toppsætinu.
Myndin hefur nú þénað 920 milljónir Bandaríkjadala í miðasölu um heim allan, en met Shrek var 919,8 milljónir dala. Á alheimsvísu þá er Toy Story 3 fjórða tekjuhæsta mynd Disney í bíómiðasölu, og kemur þar næst á eftir Pirates of the Carribean myndunum þremur og Alice in Wonderland.
Leikfangasagan hefur einnig farið yfir 400 milljón dollara markið í Bandaríkjunum, og er önnur Disney myndin til að ná því marki, en hin er Pirates of the Caribbean: Dead man´s Chest, en hún þénaði 423 milljónir dollara í miðasölu í Bandaríkjunum.
Toy Story 3, sem var frumsýnd 18. júní sl. var stærsta opnunarmynd Pixar frá upphafi, en hún þénaði 109 milljónir dala á opnunarhelginni. Hún var ellefta Disney/Pixar myndin til að fara beint í fyrsta sæti á opnunarhelginni.
Myndin verður gefin út á Blue-ray og DVD þann 2. nóvember.