Trainspotting 2 – tökur hafnar! – Kitla

Framleiðslufyrirtækið Sony Pictures Releasing UK tilkynnti í dag formlega um upphafið á tökum á myndinni sem margir hafa beðið eftir, Trainspotting 2. Til að fagna þessum áfanga, sem á sér stað í Skotlandi, þá gaf Sony út sérstaka kitlu-stiklu þar sem farið er með okkur aftur í tímann, til ársins 1996 með leikstjóranum Danny Boyle og leikarahópnum.

trainspotting

Engar nýjar myndir er að finna í stiklunni, en vekur samt sem áður með manni eftirvæntingu eftir því sem koma skal.

Allir helstu leikarar fyrri myndarinnar eru mættir til leiks á ný, þau Ewan McGregor sem Renton, Ewen Bremner sem Spud, Johnny Lee Miller sem Sick Boy og Robert Carlyle sem Begbie.

Þó það sé ekki tekið fram í stiklunni þá mun Kelly MacDonald einnig snúa aftur sem Diane. Kevin McKidd er eini leikarinn sem ekki mætir aftur, en ástæða þess er einföld, persóna hans geispaði golunni í fyrstu myndinni.

Í stiklunni segir að tökur hefjist í dag, 16. maí í Leith og í Gorgie í Skotlandi.

Handrit myndarinnar er byggt á framhaldsbók Irvine Welsh, Porno, en Boyle hefur ákveðið að nota ekki það heiti fyrir framhaldið, enda mun myndin ekki fylgja bókinni í smáatriðum.

Í Porno snýr Sick Boy aftur til Edinborgar og ætlar að búa til klámmynd með vini sínum Renton. En Begbie er staðráðinn í að hefna sín á þeim báðum eftir að hann losnar úr fangelsi. Spud blandast inn í allt saman, og tengist báðum hliðum.

Eins og fram kemur í kitlunni þá kemur Trainspotting 2 í bíó í Bretlandi 27. janúar, 2017.

Sjáðu kitlu-stikluna hér fyrir neðan, og Twitter myndir af tökunum þar fyrir neðan: