Leikarinn John Travolta var í viðtali hjá The Daily Beast á dögunum þar sem hann fór fögrum orðum um framtíðarmyndina Battlefield Earth, en hún er af mörgum talin ein versta kvikmynd sögunnar.
,,Ég sé ekki eftir að hafa gert þessa mynd, ég gat gert það sem ég vildi og ég valdi að gera mynd um þessa bók. Þetta er falleg og góð mynd,“ var haft eftir Travolta sem framleiddi myndina, ásamt því að leika í henni stórt hlutverk.
Travolta fór með hlutverk Terl í myndinni sem var gerð árið 2000. Myndin er byggð á vísindaskáldsögu L. Ron Hubbards heitins, en hann var stofnandi vísindatrúarinnar. Travolta er vísindatrúar og hefur verið síðan 1975. Sagan gerist árið 3000 eftir Krist og fjallar um baráttu síðustu frjálsu jarðarbúanna gegn geimverum sem stjórna mannkyninu með harðri hendi.