Travolta verður lögmaður OJ

John Travolta, Cuba Gooding Jr og David Schwimmer hafa verið ráðnir til að leika í nýrri sjónvarpsseríu um réttarhöldin yfir íþróttastjörnunni og kvikmyndaleikaranum OJ Simpson.

473018470-1-762x428

Byrjað er að taka þættina, sem verða 10 talsins, upp, en meðal leikenda er einnig leikkonan Sarah Paulson.

Í frétt SkyNews fréttastofunnar rifjar John Travolta upp hvar hann var þegar fréttir bárust af því að OJ Simpson væri á flótta í hvítum Ford Bronco bíl árið 1994, áður en hann gafst upp fyrir lögreglu. Réttað var síðan yfir Simpson vegna dauða fyrrum eiginkonu hans Nicole Brown og vinar hennar, Ronald Goldman.

„Ég var nýkominn heim af kvikmyndahátíðinni í Cannes þar sem við unnum Gullpálmann fyrir Pulp Fiction. Ég var í sjöunda himni og ferill minn var að ná sér á strik á ný og þá gerðist þessi bandaríski harmleikur,“ sagði Travolta.

Travolta leikur lögmann Simpson, Robert Shapiro, en Gooding leikur Simpson sjálfan.

David Schwimmer, úr Vinum, leikur Robert Kardashian, sem var á meðal verjenda Simpsons.

Schwimmer segist hafa rætt við fyrrum eiginkonu Kardashian, Kris Jenner, til að búa sig undir hlutverkið. „Ég var svo heppinn að fá að ræða við Kris í nokkra tíma og hún var mjög örlát á tíma sinn,“ segir Schwimmer. „Ég hugsaði, Hver er betri en hún í að segja mér hvernig Robert var sem eiginmaður og faðir ? og þetta hefur verið mjög spennandi.“

Selma Blair leikur Jenner.