Tvær góðar og ein leiðinleg á RIFF

Eysteinn Guðni Guðnason, einn af stjórnendum hér á kvikmyndir.is, skrifar hér á síðuna um valdar myndir á RIFF hátíðinni sem nú stendur sem hæst.

Eysteinn er búinn að skrifa um einar þrjár myndir. Fyrst ber að nefna myndina Housing sem Eysteinn gefur tvær stjörnur af tíu mögulegum: „Hrikalega leiðinleg heimildarmynd. Best að hafa sem fæst orð um hana. Við fáum að fylgjast með 3 eða 4 persónum, man það ekki nákvæmlega, sem eiga sama vandamál. Þau eru hrædd um að unglingar eigi eftir að brjótast inn, hrekja þau í burðu, og byrja að búa í íbúðinni. Það eru engin viðtöl í myndinni, við sjáum þau bara tala við vini sína og stundum bara við sjálfan sig,“ segir Eysteinn meðal annars í umfjöllun um myndina.

Næsta mynd sem Eysteinn sá var japanska myndin Dai – Nihonjin. „Þetta er næstum því mockumentary, en ólíkt myndum á borð við I’m Still Here og Blair Witch Project þá efast enginn um að þetta er sviðsett, svipað og Cloverfield,“ segir Eysteinn og er talsvert hrifnari af myndinni en Housing og gefur henni 8 stjörnur af tíu.

Þriðja myndin sem Eysteinn hefur séð og skrifað um er myndin The Blood of the Rose sem Eysteinn hreifst þónokkuð af og gefur 7 stjörnur af tíu. „Heimildarmynd um morð á hvítri konu í Afríku. Mér fannst þetta vera dæmi um hvernig heimildarmyndir eiga að vera. Kynna aðstæður án þess að vera með fyrirfram ákveðnar hugmyndir um sannleikann. Grafa dýpra ofan í bakgrunninn. Skoðar allar mögulegar hliðar. Og í endann leyfir hún áhorfandanum að koma með sínar eigin hugmynd byggða á þeim staðreindum sem voru færðar fram,“ segir Eysteinn í dómi sínum.

Eysteinn og ef til vill fleiri stjórnendur hér á síðunni munu skrifa um myndir á RIFF á meðan á hátíðinni stendur, en einnig eru notendur hvattir til að skrifa um myndir á RIFF, en búið er að skrá flestar myndir á hátíðinni inn í gagnagrunn kvikmyndir.is.

Stikk: