Framhaldssögunni um gerð myndarinnar um Hobbitann er nú loks að ljúka, en ýmislegt hefur gengið á í undirbúningi myndarinnar. Til dæmis þurfti leikstjórinn Guillermo del Toro að hætta við að gera myndina, og myndin hefur sætt mótstöðu á fyrirætluðum tökustað í Nýja Sjálandi m.a.
Warner Bros kvikmyndaverið segir hins vegar frá því í tilkynningu að gerðar verði tvær myndir um Hobbitann, og menn geti því hætt að velta vöngum yfir því hvort myndin, eða myndirnar, verði gerðar yfir höfuð.
Peter Jackson, sem leikstýrði meðal annars Hringadróttinsþríleiknum, verður í leikstjórastólnum og hefst framleiðsla í febrúar nk. samkvæmt frétt frá Warner Bros.
Jackson skrifaði handritið að myndinni ásamt Fran Walsh, Philippa Boyens og leikstjóranum Guillermo del Toro.
„Það að vinda sér í að kvikmynda þetta Tolkien ævintýri, er miklu meira en venjulegt kvikmyndaverkefni,“ sagði Jackson í yfirlýsingu. „Þetta er víðáttumikið ferðalag inn í mjög sérstakan heim þar sem ímyndun, draumar og fegurð ráða ríkjum. Við hlökkum til að snúa aftur í þennan draumaheim, til þeirra Gandálfs og Bilbo.“
Það sem frestað hefur ákvörðunum um upphaf framleiðslu, er meðal annars fjárhagserfiðleikar MGM kvikmyndaversins.
Upprunalega átti del Toro að leikstýra, en vegna tafanna þurfti hann að segja sig frá verkefninu til að sinna öðrum verkefnum sem hann var búinn að skuldbinda sig til að sinna.
Warner Bros og MGM hafa samið sín á milli um fjármögnun, en kostnaðurinn við gerð myndarinnar er áætlaður 500 milljónir Bandaríkjadala, eða rúmlega 55 milljarðar íslenskra króna. Þarna vegur kostnaður við upptökur í þrívídd nokkuð þungt, m.a., að því er Hollywood Reporter fréttaveitan hefur heimildir fyrir.
Hobbitinn er byggð á ævintýrum Bilbo Baggins, hobbita sem býr í Middle-Earth, sem er staður uppfullur af galdrakörlum, álfum og öðrum ævintýraverum. Bilbo tekst á hendur ferðalag til að finna fjársjóð sem er undir verndarvæng dreka.
Bókin um Hobbitann var fyrst gefin út árið 1937 og er eftir höfund Hringadróttinssögu, J.R. Tolkien, og gerist á undan þeirri sögu og sögusviðið, Middle-Earth, er það sama.
Hringadróttinssaga þénaði um 3 milljarða dala í miðasölunni á heimsvísu, um 330 milljarða íslenskra króna, og árið 2003 fékk lokamyndin, Return of the King, 11 Óskarsverðlaun, þar á meðal sem besta mynd.