Bandaríska leikkonan Jessica Chastain sýndi þeim Mark Wahlberg og Arnold Schwerzenegger hvar Davíð keypti ölið, í samkeppninni um áhorfendur í bíó í Bandaríkjunum um helgina.
Tvær myndir leikkonunnar, Mama og Zero Dark Thirty, voru í fyrsta og öðru sæti miðasölulistans vestra um helgina.
Mynd Mark Wahlberg, Broken City, fékk verstu byrjun allra mynda Wahlbergs síðustu tíu árin, og nýjasta mynd Arnold Schwarzenegger, The Last Stand, stöðvaðist í tíunda sæti.
Hinn ofurnáttúrulegi spennutryllir Mama, sem sagt er að hafi aðeins kostað 15 milljónir Bandaríkjadala í framleiðslu, þénaði 28,1 milljón dala í miðasölunni, samkvæmt áætluðum tölum. Þetta er fyrsta mynd Chastain sem fer beint á toppinn á frumsýningarhelgi sinni.
Sjáðu stikluna úr Mama hérna:
Myndin segir sögu af tveimur litlum stúlkum sem hverfa inn í skóg daginn sem foreldrar þeirra eru myrtir. Þegar þeim er bjargað nokkrum árum síðar og byrja nýtt líf, þá er eins og eitthvað eða einhver vilji enn koma til að svæfa þær á kvöldin.
Glæpadramað Broken City, mynd Mark Wahlberg, lenti í fimmta sæti á aðsóknarlistanum með 9 milljónir dala í tekjur. Þetta er versta frumsýningarhelgi myndar sem Mark Wahlberg leikur í síðan myndin The Truth About Charlie var frumsýnd árið 2002.
Mynd Arnolds Schwarzenegger, The Last Stand, gekk enn verr. Hún rétt skreið inn á topp tíu listann og þénaði 6,3 milljónir dala, sem er versta byrjun stórleikarans í nærri 20 ár, eða síðan Junior var frumsýnd árið 1994.
Hin mynd Chastain, Zero Dark Thirty, var í öðru sæti um helgina og þénaði 17,6 milljónir dala og hefur núna samanlagt þénað 56 milljónir dala í Bandaríkjunum.
Hér er listi 10 aðsóknarmestu myndanna í Bandaríkjunum um helgina:
Mama, 28,1 milljón dala
Zero Dark Thirty, 17,6 milljónir dala
Silver Linings Playbook, 11,4 milljónir dala
Gangster Squad, 9,1 milljón dala
Broken City, 9 milljónir dala
A Haunted House, 8,3 milljónir dala
Django Unchained, 8,2 milljónir dala
Les Misérables, 7,8 milljónir dala
The Hobbit: An Unexpected Journey, 6,5 milljónir dala
The Last Stand, 6,3 milljónir dala