Norski leikstjórinn Morten Tyldrum, sem síðast gerði hina frábæru Headhunters, hefur tekið að sér sína fyrstu Bandarísku mynd, og ber hún heitið What Happened to Monday? Myndin gerist í framtíð þar sem systkin eru ólögleg – hver fjölskylda má bara eiga eitt barn – og fjallar um eineggja sjöbura sem reyna að halda tilvist sinni leyndri. Handrit myndarinnar, eftir Max Botkin, lenti á svarta listanum (The Black List) árið 2010, sem er árlegur listi sem gerður er yfir bestu óframleiddu handritin í Hollywood.
Headhunters sló í gegn í miðasölunni í Noregi, og hefur fengið góða dóma. Fréttir bárust fyrir stuttu að Hollywood hefði hug á að endurgera myndina, ásamt því að öðrum bókum Jo Nesbø hefur verið sýndur meiri áhugi (Scorcese ætlar kannski að gera eina!). Ekki mikið meiri upplýsingar fylgja fréttinni að þessu sinni, en þessi skrýtna hugmynd með leikstjóra sem hefur sannað sig við stjórnvölinn verður þess virði að fylgjast með að mínu mati.