Njósnarinn Jack Ryan er um það bil að ganga í endurnýjun lífdaga en á tíunda áratug síðustu aldar og fram til ársins 2002, voru gerðar nokkrar bíómyndir um þessa persónu úr sögum spennusganahöfundarins Tom Clancy.
Hver man ekki eftir The Hunt for Red October, með Alec Baldwin í hlutverki Jack Ryan, The Sum of All Fears, þar sem Ben Affleck lék njósnarann, og svo myndirnar Patriot Games og Clear and Present Danger þar sem Harrison Ford brá sér í gervi Ryans.
Tökum á nýrri mynd um Ryan, sem heitir einfaldlega Jack Ryan ( ekki rugla saman við Jack Reacher ), lauk í lok síðasta árs undir leikstjórn Kenneth Branagh, sem bæði leikstýrir og leikur vonda kallinn, rússneska oligarkinn Viktor Cherevin. Hlutverk Ryans er í höndum Chris Pine, sem leikur m.a. í Star Trek Into Darkness, en Kevin Costner leikur hinn gamalreynda William Harper sem veitir hinum unga Ryan leiðsögn innan CIA.
Bandaríska dagblaðið USA Today hefur birt nýjar myndir úr myndinni á vefsvæði sínu, sem sjá má með þessari frétt.
Söguþráður myndarinnar er á þann veg að Ryan er nýútskrifaður úr sjóhernum, og er ekki byrjaður hjá leyniþjónustunni CIA, og vinnur sem fjármálaráðgjafi, en sök er komið á hann í hryðjuverkamáli.
Myndin er ekki byggð á neinni af bókum Tom Clancy, eins og fyrri myndirnar, en gerir sitt besta til að vera trú sögum Clancy.
Myndin er væntanleg í bíó í Bandaríkjunum um næstu jól.