Will Smith, sem hefur verið að fá góða dóma fyrir leik sinn í Concussion, hefur tjáð sig um hvers vegna hann hafnaði því að leika aðalhlutverkið í Django Unchained, mynd Quentin Tarantino.
„Þetta snerist um í hvaða listrænu átt söguþráðurinn færi,“ sagði Smith í hringborðsumræðum The Hollywood Reporter.
„Mér fannst hugmyndin fullkomin: náungi lærir að drepa til að endurheimta konuna sína, sem hefur verið hneppt í þrældóm. Málið var bara að ég og Quentin vorum ekki sammála,“ sagði Smith, sem hafði mikinn áhuga á að leika í myndinni. Honum fannst aftur á móti að Django Unchained ætti að vera ástarsaga en ekki hefndarsaga.
„Við getum ekki litið á það sem gerðist í París og rústað einhverjum vegna þess. Ofbeldi getur af sér meira ofbeldi. Ég gat ekki tengt við það að ofbeldi væri eina svarið. Ástin varð að vera svarið.“
Þessu var Tarantino ósammála og fór hlutverkið því á endanum til Jamie Foxx.
Django Unchained vann tvenn Óskarsverðlaun árið 2013. Tarantino fyrir besta handritið og Christoph Waltz fyrir bestan leik í aukahlutverki.