Meryl Streep er nú orðuð við nýja kvikmynd sem gera á um skosku söngdívuna og Britain´s Got Talent stjörnuna Susan Boyle.
Samkvæmt slúðurblaðinu Metro þá eru þessar upplýsingar ættaðar frá Boyle sjálfri:
„Ég myndi ekki vilja koma sjálf fram í myndinni,“ sagði hún við blaðið. „Ég myndi vilja að einhver annar léki mig. Hugsanlega Meryl Streep – mér skilst að rætt hafi verið við hana.“
Þó þessar upplýsingar séu ekki endilega mjög áreiðanlegar, þá væri þetta ekkert út úr kú. Þó Streep sé 12 árum eldri en Boyle, þá er hún þekkt fyrir að vera mikið kameljón og geta leikið krefjandi og ólík hlutverk.
Boyle varð heimsfræg á einni nóttu þegar hún kom fram í hæfileikaþættinum Britain’s Got Talent 11. apríl 2009.
Áður hafa Catherine Zeta-Jones og Glenn Close verið orðaðar við myndina.
Myndin verðu byggð á söngleiknum vinsæla I Dreamed a Dream sem aftur er byggður á sjálfsævisögu söngkonunnar.