Verstu og bestu bíósalirnir á höfuðborgarsvæðinu

Það er engu líkt að sækja kvikmyndahús og njóta magnaðrar bíómyndar í bíósal eins og oft er til ætlast. Það snýst vissulega ekki aðeins upplifunin um stærð tjaldsins heldur almenn gæði og þægindi salarins. 

En skoðum hvernig salirnir á höfuðborgarsvæðinu raðast upp, frá þeim versta til hins besta, en það er Heimir Bjarnason kvikmyndagerðarmaður sem skrifar samantektina..

Byrjum á botninum… 

28. Sambíó Álfabakka – Salur B

Já, Salur B. Salurinn á neðri hæðinni sem teygir sig út í óendanleikann. Fyrirbærið “halli” er þessum sal ekki kunnugur. Auk þess er inngangurinn í miðjum sal sem gerir allar inn- og útgöngur mjög bersýnilegar. Til hamingju með botnsætið, kæri vinur.

Góður fyrir: Hrollvekjur fyrir skræfur. Fáðu þér sæti aftast og þú gætir alveg eins horft á myndina í símanum.


27. Sambíó Kringlunni – Salur 3

Höskuldarviðvörun, þetta byrjar ekki vel fyrir Sambíóin en ég lofa að gera það upp á eftir – og ekki bara með týpíska Egilshallar-hrósinu. Ég hef annars ekki mikið um þennan sal að segja. Bara ekki fara í hann. 

Góður fyrir: Að fara með ömmu sinni í bíó.


25-26. Háskólabíó – Salur 2 & 3

Hendi þessum keimlíku sölum saman. Háskólabíó hefur staðið sig vel að undanförnu og hléleysið er algjör snilld. En við þurfum samt að horfast í augu við það að þetta eru fyrirlestrarsalir fyrst og fremst. Salir eiga að opnast út hjá tjaldinu, ekki lokast inn.

Góðir fyrir: Myndir með mikilli “low-angle” myndatöku. “The Favourite” kom t.d. ágætlega út þegar maður sat neðarlega.


24. Sambíó Egilshöll – Salur 4

Já, Egilshöllin fær sal hérna nálægt botninum. Ég hef talsvert fallegri hluti að segja um hina salina en þessi er of langur og tjald/sal hlutfallið í ruglinu. Aftur á móti hjálpaði litla tjaldið mér að lifa af Hereditary.

Góður fyrir: Ég veit það ekki og ég veit ekki hvernig mér datt í hug að bæta þessum dálk við fyrir hvern einasta sal höfuðborgarsvæðisins.


23. Bíó Paradís – Salur 2

Ég elska Bíó Paradís, ég vil bara að það sé á hreinu. Hins vegar hef ég oftar en einu sinni frestað bíóferð á ákveðna mynd þangað til hún væri sýnd í hinum sölunum. Ástæðan er einföld – skjávarpinn er of dimmur. Ef allt fer vel hjá þeim, þá verður þetta vonandi tekið fyrir einhverntímann.

Góður fyrir: Allavega ekki myndir sem gerast að næturlagi.


22. Sambíó Álfabakka – Salur 1

Halli virðist vera mjög fjarstæðukennd hugmynd þarna í Mjóddinni. Jæja. 

Góður fyrir: Fólk með vertigo.


21. Sambíó Álfabakka – Salur 2

Sorry sorry sorry, Álfabakki, minn gamli vinnustaður. Það fer að koma að góða partinum. Salur 2 er talsvert skárri en sá stóri og sætin eru af einhverri ástæðu betri. Af hverju er tjaldið samt SO DAMN HIGH?

Góður fyrir: Að fara með pabba á sex vikna gamla hasarmynd.


20. Smárabíó – Salur 2

Minni útgáfan af Sal 1 og mér finnst það ekki ganga eins vel upp í þessari stærð. Þarf ég að útskýra það eitthvað frekar? Nei.

Góður fyrir: Mynd sem þú ætlaðir ekki að sjá en varst dreginn á og svo kemur hún lúmskt á óvart og er bara nokkuð fín. Nákvæmlega sú stemning.


19. Háskólabíó – Salur 1

Þessi fékk að fara aðeins ofar þökk sé stærð tjaldsins en ég endurtek – þetta er fyrirlestrarsalur.

Góður fyrir: Franskar kvikmyndir. Af því bara.


18. Smárabíó – LÚXUS

Fínustu sæti, æðislegt að getað fengið sér bjór (það tengist þessu þó ekki) en tjaldið er of aðeins of hátt uppi.

Góður fyrir: Íslenskar dramamyndir. Að stara upp ýtir undar þrúgandi stemninguna.


17. Sambíó Álfabakka – Salur A

Salur A, staðsettur á neðri hæðinni, er fínasti salur. Hallinn er flottur og það er svona stemning eins og maður hafi labbað inní kvikmyndasal frá tíunda áratugnum. Plís ekki uppfæra hann!

Góður fyrir: Fast and the Furious myndirnar ásamt góðu fólki. Popp fljúgandi um salinn og sassy mótsvör við því sem er að gerast.


16. Sambíó Kringlunni – Salur 2

Fínn salur en dáldið vanilla. Breiddin hjálpar þó. 

Góður fyrir: Elskhuga í öftustu röð.


14.-15. Smárabíó – Salur 4 & 5

Fínir salir, fjórði aðeins betri en sá fimmti. Hef sömu sögu að segja um þá og ofangreinda Kringlu-salinn. Dáldið vanilla en gera það sem er ætlast af þeim.

Góðir fyrir: Að fara einn í bíó.


13. Laugarásbíó – Salur B

Tek fram að “B” er gamli “C” salurinn því “B” varð að “A” og “A” varð að “AXL” og því er “C” ekki lengur til heldur er orðinn “B”. Skilurðu? 

Minnsti salurinn í Laugarásnum er fínn fyrir stærð en hefur enga bónusa til að færast ofar á listann. 

Góður fyrir: Grínmyndir. Mikil nánd í salnum.


12. Bíó Paradís – Salur 1

Hérna koma einungis fremstu fimm raðir til greina. Allt eftir það og tjaldið er orðið of lítið. Helsti kosturinn er að geta sest á fremsta bekk án þess að eyðileggja hálsinn á sér.

Góður fyrir: Kvikmyndir skotnar í 2.35 hlutfallinu. The Farewell kom mjög vel út.


11. Sambíó Kringlunni – Salur 1

Flottur salur en ekki sá fyrsti af stóru sölunum sem dregur mig til sín.

Góður fyrir: Þrívídd hefur litið ágætlega út í þessum sal.


10. Háskólabíó – Salur 4

“Guilty pleasure” salurinn minn. Besti salur Háskólabíó er í kjallaranum og ástæðan er einföld. ÞAÐ ER EKKERT SVIÐ. Þetta er bíósalur og afsakaplega huggulegur í þokkabót.

Góður fyrir: Hell or High Water. Ættu bara að sýna hana á lúppu þarna niðri.


9. Smárabíó – Salur 1/MAX

Tjaldið er svolítið langt frá en stærðin og hljóðgæði bæta upp fyrir það.

Góður fyrir: Digital myndir með þetta crispy clean útlit. Eða bara myndir frá Sony.


8. Bíó Paradís – Salur 3

Já, minnsti salurinn er uppáhalds salurinn. Ég hef átt góðar stundir í þessum sal og svo lengi sem maður situr í fremstu þremur röðunum þá fær maður ósvikna bíóupplifun.

Góður fyrir: Evrópskar grínmyndir. Stemning smitast hratt í þessum sal.


6-7. Sambíó Egilshöll – Salur 2 & 3

Almennilegir miðjusalir. Góð sæti og tjaldið fyllir sjónsviðið vel.

Góðir fyrir: Hrollvekjur. 


5. Sambíó Álfabakka – VIP

Prýðindis lúxussalur. Góð fjarlægð við tjald og mjög þægileg sæti. Sakna gömlu sætanna örlítið samt.

Góður fyrir: Óskarsverðlaunamyndir. Helst í lengri kantinum.


4. Laugarásbíó – Salur A

Ekki stóri salurinn. Manstu, “B” varð “A” og allt það. Miðjusalurinn. Hérna er minni salur sem notfærir sér stærð sína á sniðugan hátt. Tjaldið fyllir út ALLAN vegginn. Þannig á að gera það. Svo eru sætin geggjuð.

Góður fyrir: Afslappaða bíóferð á virkum degi.


3. Sambíó Álfabakka – Salur 3

Falda gersemi Álfabakkans er salurinn undir stigunum. Tjaldið dreifir sig út vegginn og mikilfenglegasti bíósalshalli Mjóddarinnar sér til þess að öll sæti eru góð. Ég hef ófáum sinnum beðið eftir að myndir tínast inní þennan sal áður en ég færi á þær.

Góður fyrir: Ég var búinn að segja það áður en þessi salur er líka mjög góður fyrir hrollvekjur.


2. Sambíó Egilshöll – Salur 1

Stóri salur Egilshallarinnar er kóngur bíósala landsins. Þetta er eins nálægt því og við komumst IMAX-sal hérlendis.

Góður fyrir: Hérna kemurðu fyrir “event”-myndirnar á borð við Avengers o.s.frv. Þetta er FM957 bíóanna.


1.  Laugarásbíó – AXL

Á meðan Egilshöll er kóngurinn þá er Laugarásbíó drottningin og tekur toppsætið auðveldlega. Hljóðgæði og kraftur eru til fyrirmyndar í Laugarásbíó. Sætin eru frábær og þeir hafa fjarlægt fullt af þeim svo að öll sæti séu með gott sjónarhorn á tjaldið. Ég hef farið mikið í bíó erlendis og ég get sagt ykkur að mikið betra verður það ekki.

Góður fyrir: Myndir með framúrskarandi hljóðvinnslu – myndir á borð við Ford v Ferrari og Blade Runner 2049.


Það er gaman að rýna í salina, kosti þeirra og galla, en ég stend samt á þeirri skoðun að bíóupplifunin sé alltaf besta leiðin til að sjá kvikmyndir. “Versti” salurinn verður ávallt betri en heimabíóið. Lengi lifi bíó.