Breski Lock Stock and Two Smoking Barrels og Sherlock Holmes leikstjórinn Guy Ritchie á í viðræðum við Disney um að leikstýra leikinni útgáfu af Aladdin teiknimyndinni frá árinu 1992.
John August skrifar handrit myndarinnar, sem sögð er eiga að innihalda eitthvað af sömu tónlistinni og var í teiknimyndinni.
Aladdin teiknimyndin var hluti af upphafi nýrrar gullaldar Disney í teiknimyndagerð, og sagði þjóðsögu frá Mið – austurlöndum af ungum manni sem fær þrjár óskir hjá anda sem er fastur í töfralampa.
Gamanleikarinn Robin Williams talaði eftirminnilega fyrir andann, en myndin sló í gegn og varð best sótta mynd ársins 1992.
Myndin vann einnig tvenn Óskarsverðlaun, fyrir bestu tónlist og besta lag, A Whole New World, sem var eitt af sex vinsælum lögum í myndinni.
Sagt er að framleiðendur hafi áhuga á að myndin verði óhefðbundin, og fylgi til dæmis ekki línulegri frásögn, sem einmitt er hluti af stíl Ritchie.
Síðustu myndir Ritchie eru The Man From U.N.C.L.E. og King Arthur, sem væntanleg er 24. mars á næsta ári.