Eftir feiknagóða frumsýningarhelgi framhaldsmyndar Malcolm D. Lee, The Best Man Holiday, eða Svaramaður fer í frí, í lauslegri íslenskri þýðingu, nú um helgina, þar sem myndin þénaði 30 milljónir Bandaríkjadala, þá er Universal kvikmyndaverið byrjað að ræða við Lee um að skrifa, framleiða og leikstýra þriðju myndinni í þessari rómantísku gamanmyndaseríu, en fyrri myndin hét einfaldlega The Best Man og var frumsýnd árið 1999.
Ekki er vitað til þess hvort viðræður við leikarana í The Best Man Holiday eru hafnar.
Það tók Lee 14 ár að klára framhaldsmyndina, en líklega munu menn ekki þurfa að bíða eftir þeirri þriðju jafn lengi.
Myndin kostaði 17 milljónir dala og er því komin í rífandi gróða, en um er að ræða fimmtu bestu frumsýningarhelgi bannaðrar rómantískrar gamanmyndar frá upphafi.