Rómantíska uppvakningagamanmyndin Warm Bodies er nú væntanleg í bíó innan skamms, en þar leikur Nicolas Hault uppvakninginn R sem fer á fjörurnar við vinkonu eins af fórnarlömbum sínum.
Við sýndum stiklu úr myndinni í desember en hér er komið stutt atriði þar sem tvær vinkonur eru að ræða þetta furðulega ástarsamband:
Warm Bodies er kvikmyndagerð af bók eftir Isaac Marion og fjallar um R sem þvælist í gegnum lífið, borðandi heila eins og hver annar uppvakningur. En það lúrir ennþá eitthvað mannlegt í mygluðum hausnum á honum, og þegar hann hittir Julie, þá kviknar ástareldur.
Það eru þó skiljanlega nokkrir erfiðleikar sem fylgja þessu sambandi. R er hægt og sígandi að grotna niður, og flestir vinir hans þrá ekkert meira en að éta vinkonu hans, en hún býr í athvarfi fyrir menn sem faðir hennar General Grigio, sem leikinn er af John Malkovich, rekur. Grigio hefur svarið að útrýma uppvakningum af jörðinni, en sagan gerist eftir allsherjarstríð.
Aðrir leikarar eru m.a. þau Analeigh Tipton, Rob Corddry og Dave Franco.
Myndin kemur í bíó í Bandaríkjunum 1. febrúar nk. en 15. febrúar á Íslandi.