Vinsælast á Netflix á Íslandi í dag – Blind ást á toppnum

Notkun Íslendinga á streymisveitunni Netflix hefur aukist stöðugt á undanförnum misserum og virðist vera nóg af framboði efnis sem hentar einum og hverjum. Nýverið tók streymisveitan upp á því að birta lista yfir tíu vinsælustu titla í hverju landi, en þar falla kvikmyndir, sjónvarpsþættir, heimildarmyndir og allt tilheyrandi undir sama hatt.

Listinn uppfærist daglega en að svo stöddu samanstendur hann af 10 eftirfarandi titlum:

1. Love is Blind

Raunveruleikaþátturinn Love is Blind er gífurlega umtalaður þessa dagana en lokaþátturinn var sýndur nú á dögunum. Áhorfendur hafa víða deilt um gæði þessarar seríu en grunnhugmyndin gengur út á mismunandi pör sem kynnast í sitthvoru, lokaða herberginu og ná tengingu áður en hulunni er svipt og þá tekur trúlofun við ásamt næstu skrefum í lífi þeirra para.

2. Altered Carbon

Á tímabili voru „sci-fi“ þættirnir Altered Carbon þeir dýrustu sem Netflix hafði framleitt en önnur sería hóf göngu sína í vikunni. Framtíðarheimur þáttanna þykir einstaklega vel skapaður og eru þeir byggðir á samnefndri bók eftir Richard K. Morgan. Grunnhugmynd þessa efnis gengur út á það að flytja meðvitund einstaklings á milli líkama, en leikarinn Anthony Mackie, sem er meðal annars þekktur sem Falcon úr Marvel-heiminum, tekur upp þráðinn sem nýjasta ermi Takahashi Kovacs.

3. I Am Not Okay With This

Þessir glænýju þættir eru byggðir á teiknimyndasögu eftir Charles Forsman (The End of the F***ing World) og segja sögu ungrar stúlku en á erfiðum tímum uppgötvar að hún hefur einstaka hæfileika. Þá flækist fjölskyldu- og félagslífið töluvert meira, eins og slíkt á þessum aldri sé ekki nógu erfitt fyrir.

4. The Trials of Gabriel Fernandez

Heimildarþáttaröð um morðið á hinum átta ára Gabriel Fernandez. Serían hefur hlotið góða dóma og þykir nálgunin á erfiðu umfjöllunarefni vera ákaflega vönduð og grípandi. Þættirnir hófu göngu sína í vikunni og voru ekki lengi að smeygja sér inn á vinsældarlistann.

5. Pokemon – Mewto Strikes Back: Evolution

Glæný, tölvuteiknuð Pokémon-mynd þar sem vinirnir Ash, Misty og Brock takast á við hinn óhugnanlega Metwo og ráðabrugg hans. Sannir Pokémon-aðdáendur ættu að kannast vel við þessa framvindu, enda tölvugerð endurgerð á fyrstu bíómynd seríunnar, en vinsældir nýju myndarinnar hafa ekki leynt sér. Þegar horft er yfir heildina er þetta 22. bíómyndin í myndabálknum margumtalaða. Ekki þykir ólíklegt heldur að vinsældir Detective Pikachu hafi eitthvað um áhorfið að segja.

6. RuPaul’s Drag Race

Dragkeppni RuPaul hefur stöðugt farið vaxandi í vinsældum á íslenskum markaði, enda mikið skemmtanagildi að finna í leitinni að næstu súperstjörnu dragheimsins þar sem keppendur fá nýjar og skrautlegar þrautir í hverri viku. Seríurnar eru núna orðnar ellefu í heildina ásamt þónokkrum „spinoff“ seríum sem hafa glatt aðdáendur títt.

7. Formula 1 – Drive to Survive

Önnur sería af heimildarþáttunum Formula 1: Drive to Survive leyfir áhorfendum að skyggnast á bakvið tjöldin inn í heim innstu hringiðu Formúlunnar. Rætt er við ýmsa ökumenn, umboðsmenn og fleiri og virðast margir áhorfendur vera sammála um að þurfi ekki að sýna sportinu áhuga til að festast í þessum þáttum.

8. All The Bright Places

Kvikmyndin All the Bright Places er byggð á metsölubók Jennifer Niven og segir frá tveimur unglingum sem takast á við missi og aðra erfiðleika sem fylgja unglingsárunum. Þá áttar parið sig á því að hinir minnstu hlutir geta oft haft stærstu áhrifin. Með aðalhlutverkin fara Elle Fanning, Justice Smith og Luke Wilson.

9. The Stranger

Bresk spennuþáttaröð sem frumsýnd var undir lok janúarmánaðar og fjallar um fjölskyldumanninn Adam Price, sem virðist lifa hinu fullkomna lífi. Það breytist þó ört þegar ókunnugur gestur birtist skyndilega og afhjúpar leyndarmáli sem veltir öllu lífi Adams um koll. Þættirnir eru byggðir á samnefndri skáldsögu og hafa hlotið toppdóma um allan heim.

10. Riverdale

Unglingaþættirnir Riverdale hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár og eru seríurnar núna orðnar fjórar (og búið er að gefa grænt ljós á þá fimmtu). Hefur þáttunum verið líkt við eins konar unglingaútgáfu af Twin Peaks og Twilight Zone en þættirnir sækja sinn innblástur í hinar víðfrægu teiknimyndasögur um Archie Andrews og meðfylgjandi persónur í lífi hans.