Nei þetta er ekki endurgerðin af samnefndri (og æðislegri) skrímslamynd frá Suður-Kóreu, heldur höfum við hér næstu kvikmynd leikstjórans Andrew Niccols, The Host. Myndin er byggð á samnefndri bók eftir Stephanie Meyer, vægast sagt ‘spes’ höfundi hinna umtöluðu Twilight-bóka, en ólíkt Twilight hefur þessi bók fengið tölvert meira lof. Fyrsta stiklan fyrir myndina var birt nú um helgina og hægt er að sjá hana fyrir neðan lýsinguna á bókinni.
Bókin gerist á jörðinni eftir mjög frábrugðna innrás geimvera þar sem mannfólkið tapaði baráttunni og lifir nú friðsælu og ‘ánægjulegu’ lífi sem hýslar þessara óboðnu gesta. Stúlka að nafni Melanie Stryder (tengið saman nafnið og nafn höfundarins) tekst að berjast gegn sníkjudýrinu Wanderer, sem veldur sérkennilegum breytingum í Wanderer þannig að hún byrjar að tengja sig við tilfinningar og ástarsambönd Melanie gagnvart elskanda hennar Jared og bróðir hennar, Jamie. Brátt sogast Wanderer inn í heim eftirlifandi mannfólks sem sluppu við að verða hýslar, og þarf Wanderer að takast á við nýju heimsýn sína og sambönd sem hún myndar þar á leiðinni.
Bókin er, satt að segja, mjög einstakur vísindaskáldskapur (burtséð frá því að hún er innblásin af Animorphs) þar sem innrásin er lík Invasion of the Body Snatchers, nema að geimverurnar eru með góðvild og sambúð í huga, en telja sig ekki gera neitt siðferðislega rangt í þeirra bók og er áhugavert að sjá hvernig heimssýn bæði mannfólksins og geimveranna hafa bæði sín eigin rök og galla, og að hvorug hliðin getur gert sér grein fyrir sjónarhorni hvors annars. Einnig, þó að aðalpersónurnar tvær séu frekar miklar Mary Sue-týpur, byggist bókin frekar mikið á persónuþróun Wanderer (seinna nefnd ‘Wanda’) og hljóma átökin og samböndin í bókinni satt að segja áhugaverðari en fyrri ‘verk’ Meyers.
Það verður spennandi að sjá hvað kvikmyndagerðarmaður eins og Niccol mun gera með efniviðinn því hann hefur fært okkur mjög beittan og viðeigandi vísindaskáldskap áður, á borð við hina mögnuðu Gattaca og nýjustu mynd hans, In Time. Einnig sjá Weta um tæknibrellur myndarinnar, og það á ódýrari skala en District 9. Þá er bara spurning hvort myndin mun innhalda jafn … ‘óþægilegan’ endir og bókin.
Hvernig leggst myndin í lesendur og er stiklan nokkuð að vekja meiri áhuga en nafn Niccols?