Óskarsverðlaunaleikarinn Cristoph Waltz ( Inglorious Basterds, The Legend of Tarzan ) á í viðræðum um að leika stórt hlutverk í Alita: Battle Angel, í leikstjórn Robert Rodriguez ( Sin City: A Dame to Kill For ). Framleiðandi er James Cameron.
Um er að ræða kvikmyndagerð á geysivinsælli japanskri Manga teiknimyndasögu.
Maze Runner leikkonan Rosa Salazar mun leika titilhlutverkið.
Myndin fjallar um kvenkyns vélmenni ( Salazar ) sem vísindamaður finnur á brotajárnshaug. Vélmennið man ekkert frá fyrra lífi, nema að hún hefur engu gleymt af einstakri bardagafærni sinni.
Hún gerist mannaveiðari, og eltir uppi glæpamenn. Undir niðri fjallar myndin einnig um sjálfsleit og leitina að ástinni.
Ef samningar nást, þá mun Waltz leika Doctor Dyson Ido, vélmennaskurðlækninn, sem finnur vélmennið og verður lærimeistari hennar.
Frumsýning er áætluð í júlí árið 2018.
Ef af þátttöku Waltz verður þá má segja að hann sé að slá nýjan tón miðað við síðustu hlutverk sem hann hefur leikið, en hann er einkum þekktur fyrir að leika þorpara og illmenni upp á síðkastið. Hann lék vonda kallinn í The Legend of Tarzan og í James Bond myndinni Spectre. Nýlega lauk hann leik í mynd Alexander Payne, Downsizing, og mun einnig sjást í búningadramanu Tulip Fever næsta vor þar sem hann leikur á móti nýstirninu Alicia Vikander.