Whedon tæklar Avengers

Deadline New York segir að framleiðendur Marvel Studios séu rétt í þessu að ganga frá samningi við Joss Whedon þar sem þeir vilja að hann leikstýri hinni væntanlegu Avengers-mynd (þar sem Iron Man, Hulk, Captain America ásamt fleirum koma allir saman). Fyrir þá sem ekki vita þá er Whedon sá sami og skapaði t.d. Buffy, Angel og Firefly. Hann hefur leikstýrt mikið af sjónvarpsefni og síðan auðvitað bíómyndinni Serenity. Myndasöguaðdáendur ættu líka mikið að þekkja til hans þar sem hann hefur meðal annars skrifað fyrir The Astonishing X-Men og The Runaways fyrir Marvel.

Eins og staðan er í dag mun leikaraval Avengers líta einhvern veginn svona út:

Robert Downey Jr. – Iron Man
Chris Evans – Captain America
Chris Hemsworth (þessi gaur) – Thor
Samuel L. Jackson – Nick Fury

Þeir eru a.m.k. allir bókaðir. Það kemur eflaust mun meira í ljós varðandi þessa mynd um leið og Iron Man 2 byrjar að mala gull í miðasölunni.

Framleiðslan fer í gang á næsta ári. Ætlað er að myndin komi í bíó í maí 2012.