Hafið það endilega á bakvið eyrað, kæru lesendur, að ef Men in Black 3 verður ömurleg, þá getum við öll sagt að það sé Will Smith að kenna. Eða svona hér um bil.
Leikstjórinn Barry Sonnenfeld, sem gerði einnig hinar tvær myndirnar um svartklæddu geimverubananna, sagði í viðtali við breska tímaritið Contactmusic að hugmyndin og sagan fyrir þriðju myndina hafi alfarið verið í eigu Wills Smith.
„Will kallar á mig í miðjum tökum á Men in Black 2,“ segir Barry í viðtalinu, „og hann segist hafa fengið skothelda hugmynd fyrir næstu mynd. Hugmyndin lýsir sér þannig að karakterinn hans Will, Agent J, þarf að fara aftur í tímann til að geta bjargað félaga sínum. Með þessari formúlu væri hægt að sýna forsögu persónunnar sem Tommy Lee Jones leikur, og nýta aðeins gamla tímabilið.“
Sonnenfeld segir að þróun þriðju myndarinnar hafi tekið langan tíma af ýmsum ástæðum, og ein þeirra var alltaf sú að það var mjög erfitt að sjóða saman handrit úr þessari sögu út af öllum lógísku flækjunum og gloppunum sem geta oft fylgt sögum um tímaflakk.
Það eru nú liðin 10 ár frá því að seinasta mynd leit dagsins ljós og greinilega lítur út fyrir að aðstandendur hafi nýtt tímann til að setja saman skothelt handrit, ef eitthvað á að marka þessi orð, sem er að sjálfsögðu kaldhæðnislegt vegna þess að myndin fór víst í tökur áður en handritið var tilbúið.
Leikstjórinn var spurður hvort það hafi verið góð hugmynd að fara í tökur áður en búið var að loka handritinu. Hann svaraði því mjög skýrt: „Ef myndinni gengur vel, þá mun ég segja að sú hugmynd hafi verið algjör snilld. Ef myndin feilar, þá er öruggt að segja að hún hafi verið mjög heimskuleg.“
MIB 3 verður frumsýnd í sumar. Einhvern tímann á eftir The Avengers, á undan The Dark Knight Rises. Það er alveg öruggt að líta bara á þetta þannig, nema það séu einhverjir í rauninni að missa vitið úr spenningi fyrir þessari mynd. Er ekki bara málið að vera þakklátur ef hún verður skárri heldur en mynd nr. 2?