Óskarstilnefnda leikkonan og spjallþáttadrottningin Oprah Winfrey mun leika í næstu mynd Ava DuVernay, ævintýramyndinni A Wrinkle in Time, eða Hrukka í tímans hafi, í lauslegri þýðingu.
Winfrey lék einnig í fyrri mynd DuVernay, Selma, sem fjallaði um frelsishetjuna Martin Luther King, auk þess sem Winfrey og DuVernay vinna saman að nýjum sjónvarpsþætti, Queen Sugar.
A Wrinkle in Time hefur verið í þróun hjá Disney afþreyingarrisanum í sex ár, og er kvikmyndagerð á skáldsögu Madeleine L´Engle frá árinu 1963 og fjallar um leit stúlku að vísindamanninum föður sínum, í hinni dularfullu fimmtu vídd.
Handritshöfundur Frozen og aðstoðarleikstjóri, Jennifer Lee, mun skrifa handritið.
Winfrey mun leika Frú Which, sem er norn sem hjálpar aðalpersónunni.
Enn á eftir að ráða í önnur helstu hlutverk, en rætt er um að Amy Adams og Kevin Hart eigi í viðræðum um að taka þátt.
Myndin verður fyrsta leikna mynd DuVernay í fullri lengd síðan hún gerði hina Óskarstilnefndu Selma árið 2014. Heimildarmynd hennar, The 13th, um áhrif þrælahalds á Bandaríkin, var nýlega valin til að vera opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar í New York í haust.