X-Men: Apocalypse mun gerast árið 1983

Handritshöfundur og framleiðandi X-Men: Apocalypse, Simon Kinberg, var í útvarpsviðtali á dögunum og uppljóstraði hann þar að myndin muni gerast árið 1983. Fox kvikmyndaverið staðfesti fyrir nokkru að myndin verði frumsýnd þann 27. maí árið 2016.

X-Men-Days-of-Future-Past-Magneto-Wolverine-and-Beast

X-Men: Days of Future Past hefur notið gríðarlegra vinsælda og telja sumir gagnrýnendur að um sé að ræða bestu myndina í seríunni. Í myndinni var farið aftur til fortíðar, nánartiltekið til ársins 1973 til þess að breyta framtíðinni, en þar áttu hinir stökkbreyttu undir höggi að sækja frá vélmennum sem höfðu genamynstur persónunnar Mystique.

Í Days of Future Past er spunnið sögu út frá raunverulegum atburðum frá þeim tíma og má búast við því að eftirminnilegir atburðir munu koma við sögu að nýju. Árið 1983 bar þar m.a. hæst að Bandaríkjamenn hernámu Grenada og að forsetinn Ronald Reagan setti fram fyrstu hugmyndir sínar um tækni til að verjast eldflaugum. Andrés Önd kom einnig út í fyrsta skipti á íslensku, en við efumst um að það verði notað í myndinni.