Ég ætla að byrja á að segja að ég fílaði Prometheus í botn, jafnvel þó hafi verið stútfull af göllum og stórum gloppum í sögu sinni. Myndin er strax byrjuð að valda miklum umræðum og þá sérstaklega útaf spurningunum sem hún vekur upp. En ég ákvað að safna saman ýmsum spurningum sem ég hef verið að hugsa um síðan ég sá myndina.
ATH: Spillar!
Ef þið vitið svörin þá skuluð þið endilega láta í ykkur heyra, og jafnvel bæta inn ykkar eigin spurningum varðandi myndina ef þið hafið einhverjar – það er fínt að koma af stað smá umræðu um ræmuna, enda meira en nóg til að fjalla um.
10. Af hverju var risavaxin stytta af höfði í ‘vopnabúrinu’?
Þurftu Skapararnir að fóðra egóið sitt svona mikið með heilli veggmynd af sjálfum sér? Ég fílaði Gieger-hönnunina en ég fattaði einfaldlega ekki tilganginn fyrir utan hversu flott það myndi líta út á plakötum. Ímynduð ykkur ef þið ættuð vopnageymslu með risavaxinni leirstyttu af ykkur í miðjunni, til hvers?
9. Vantaði senur með Idris Elba og flugmönnunum tveim?
Prometheus langaði mjög mikið af færa okkur margar litríkar persónur en tókst einungis að naga í skinnið utaná kjötinu. En ég er nokkuð viss um að það er til lengri útgáfa sem færir okkur meiri tíma með persónu Idris Elba og félögum, því ég einfaldlega skil ekki afhverju þeir ákváðu svona fljótt að bana sér sjálfum til að stöðva skip Skaparans.
Vanalega í svona aðstæðum í kvikmyndum yrðu til deilur milli Elizabethar og Janek þangað til það væri nánast orðið of seint að stöðva skipið. Það er reyndar helvíti svalur útúrsnúningur og sýnir hversu mikill harðjaxl Janek og flugmenn hans eru, en ég væri til í að fá frekari útskýringu á persónuleika þeirra og hvernig þeir tóku þessa ákvörðun svo fljótt. Sjálfsmorðsárás er ekki eitthvað sem fólk tekur upp á sísvona, sérstaklega í undir pressu þar sem þarf að vega og meta hvað mun og mun ekki gerast.
8. Af hverju var einn Skaparinn frystur?
Eini eftirlifandi Skaparinn sem fannst og hann var sá eini sem var frystur. Var hann að vonast til þess að fólkið sitt myndi koma á endanum til að sækja hann og afþýða hann? Öhm, það liðu rúm 2.000 ár milli þess að einhver kom á plánetuna, þannig það er ekki sérstaklega solid áætlun. Þetta er jafnvel skrítnara þegar maður hugsar út í af hverju hann tekur þá strax upp á því að fara til jarðar þegar hann vaknar.
Af hverju var hann þá frystur og hver frysti hann þegar hann hefði alveg eins getað klárað ætlunarverkið og flogið beinustu leið til jarðar? Var þetta illkvittinn skapari sem fór gegn skipunum manna sinna og ákvað að verða jörðinni að bana? Eru þá Skapararnir ekki að reyna að tortíma okkur, og var hópurinn af Sköpurum sem komu til plánetunnar kannski bara þarna í vísindaleiðangri nema þessi eini sem var síðan frystur? Það líkist dáldið hvernig Weyland var með sín eigin áform þó hann hafi ferðast ásamt vísindaáhöfn.
7. Af hverju hlupu þær meðfram hliðinni sem var að falla?
Ókei, svarið við þessu er reyndar einfalt; af því mómentið krefst þess að hasar sé kreistur úr hápunkti látanna. En kommon, hvernig lítur þetta ekki hlægilega kjánalega út þegar okkur er sýnt aftur og aftur að þau gætu auðveldlega fært sig nokkra metra til hliðar, eins og Elizabeth (Lisbeth?) gerir síðan.
6. Var fyrsta senan um sköpun mannkynsins?
Ég er nokkuð viss um að það stenst ekki að það sem við sjáum í byrjun myndarinnar sé jörðin. Okkur er gefið upp með texta að söguhetjurnar séu staðsettar á Skotlandi þegar þær eru þar, okkur er gerð grein fyrir að þau séu stödd um borð á Prómeþeif þegar við sjáum skipið í fyrsta sinn, en okkur er ekkert gefið upp hvar fyrsta senan gerist.
Margir vilja meina að þetta séu Skapararnir að hefja líf á jörðinni, en af hverju er þetta tekið upp á Íslandi og staðsetningin ekki nefnd með texta? Mig minnir að þegar þau lentu á plánetunni á Prómeþeif að það hafi ekki neinn texti poppað upp til að segja okkur eitthvað um staðsetninguna eins og með Skotland, þannig það gæti verið vísbending um að þessi sena gerist ekki á jörðinni. Og af hverju að nota Ísland sem tökustað fyrir jörðina OG ónefndu plánetuna? Sparnaður? Ef svo er þá skapar það einfaldlega rugling meðal áhorfenda sem pæla í þessu.
5. Af hverju voru stjörnukort staðsett um út alla jörð?
Þetta skil ég alls ekki. Voru Skapararnir að leiða okkur til plánetunnar svo við gætum fundið vopnin, smitast, og ferðast með smit til jarðarinnar? Það væri fáránlega flókið og jafnvel þá höfum við séð að þeir sem smitast eru fljótir að deyja og springa jafnvel, áhöfnin myndi að öllum líkindum ekki komast alla leið til jarðar. Ef þetta var ekki áætlunin, til hvers voru þá stjörnukortin? Til að vísa öðrum Sköpurum í heimsókn til jarðarinnar til plánetunnar?
4. Af hverju var veðrið rólegt að mestu leyti í Prometheus en ekki í Alien-seríunni?
Í Alien og Aliens er lögð sérstök áhersla á hversu stanslaust og bandbilað stormveðrið er á plánetunni, en í Prometheus er veðrið frekar rólegt út rúman helming af tímanum sem þau eru á plánetunni. Kannski er þetta alveg kolrangt hjá mér í ljósi þess hvernig við sáum einnig rigningu (mínus rok) í Aliens þegar teymið lendir þar.
3. Af hverju rakst enginn á búnaðinn frá Prómeþeif í Alien-seríunni?
Pælið í því, eftir allan fjandann sem gerist í lokin þá væri auðveldlega hægt í fyrstu tveim Alien-myndunum að rekast á neyðarskip Vickers, leifar af Prómeþeif og farartæki skipsins sem lágu út um allt í lokin. Hvað þá í Aliens þar sem heil miðstöð af fólki var uppsett á svæðinu.
2. Af hverju var Weyland leikinn af Guy Pearce?
Af hverju? Var það fyrir TED Talks myndbandið? Eru framleiðendurnir að íhuga forvera fyrir Prometheus þar sem Pearce mun fara með hlutverk Weyland á sínum yngri árum? Fyrir mér er fátt jafn truflandi í kvikmyndum og þegar ungt fólk leikur gamalmenni, því förðunin lítur alltaf út eins og förðun og ekkert virðist í samræmi útlitslega séð. Það er eins og að horfa á einhvern leika gamalmenni útataður í litlausu tyggjói. Það væri miklu betra (og hagstæðara) að fá einhvern sem er í eldri kantinum því þá fer ekki megnið af leiktilbrigðunum í að einbeita sér að vera gamall.
1. Af hverju var Skapari í skipinu í Alien?
Þetta er allra stærsta spurningin sem mér datt í hug þegar ég gekk úr salnum. Ef myndin leggur svona mikla áherslu á að hún sé uppbygging fyrir Alien(?), af hverju hleypur hún þá fram hjá því sem vakti spurningarnar um skipið í þeirri mynd? Í Alien sjáum við Skapara við stjórnborðið í búningnum og eitthvað hefur rifið sig út úr honum (eins og geimverurnar gera í Alien seríunni).
Jafnvel geimveran sem rífur sig úr Skaparanum í lokin tekst að tæta bringuna á honum í spað, mjög ólíkt hvernig sá við stjórnborðið leit út. og hvað varð um geimveruna? Þessi spurning vekur upp enn meira brennandi spurningu sem myndi útskýra einnig spurningar 3 og 4; er Prometheus hliðarsaga sem gerist á annarri plánetu?