Sæmilega unnið úr frábærum hugmyndum

Nauh! Ridley Scott er bara aftur kominn þangað sem ferillinn byrjaði, með því að byrja semsagt á byrjuninni. Eða réttara sagt byrjuninni á byrjuninni.

Scott hefur kannski gert misgóðar kvikmyndir í gegnum sinn langa (og skrambi fjölbreytta) feril, en þessi virðulegi fagmaður er hálfgerð goðsögn, og það er ekkert annað en beinhörð staðreynd. Hann var nú meira að segja strax orðinn að einhverju keisaratákni fyrir það eitt og sér að fikta við dökkar vísindaskáldsögur. Heilum þrjátíu árum síðar snýr hann sér aftur að sci-fi geiranum, sem enn einu sinni undirstrikar það að árið 2012 ætlar sér greinlega að verða það ár þar sem jarðskjálftum fjölgar fimmfalt vegna nördafullnæginga. Og gat leikstjórinn varla valið sér kærkomnara verkefni…

Án þess að ofhugsa það að Scott er alls ekki sami kvikmyndagerðarmaðurinn núna á áttræðisaldrinum og hann var í denn, þá er vel tekið á móti honum í sci-fi hásætinu ef maður elskar bíómyndir. Jafnvel þótt maður fíli ekki Alien. Prometheus er líka rosalega óvenjulegt kvikindi, og nokkuð djörf fjármögnun hjá Fox verð ég að segja. Myndin hegðar sér og lítur út eins og forsaga, en spilast samt ekki út eins og forsaga (ekki nema þá continuity-ið sé í algjöru, hlægilegu fokki – en ég efa það). Gerð er semsagt ekki bara heiðarleg og að mínu mati töff tilraun til þess að stækka gamlan, þekktan og klassískan bíóheim, heldur er hann gjörsamlega útvíkkaður í sundur. Áhorfendur þurfa svosem ekkert að gera neina massíva heimavinnu til að átta sig á því hvernig þessi „næstum-því-Alien-mynd“ virkar, en skiljanlega hafa þeir miklu minna að gera við Prometheus ef þeir þekkja ekkert til Ridley Scott-myndarinnar frá ’79.

Að mínu mati stenst þessi mynd ómögulega þær tröllavæntingar sem hafa fylgt leikstjóranum frá því að tökurnar byrjuðu eða framleiðslan tilkynnt fyrst. Prometheus er „tense“ og óaðfinnanlega vel gerð sóun á fínu tækifæri. Hún er prýðisafþreying í sjálfu sér og einhvern veginn verður hún samt aðeins betri því minna sem ég tengi hana við myndina sem einmitt ætlast er til þess að tengja hana óbeint við. Efniviðurinn er klárlega að mínu skapi en ekki hvernig unnið er úr honum, og mér fannst ég hafa í skornum bitum fengið ofsalega gáfaða og sniðuga mynd sem hefði þurft á góðum handritslækni að halda. Helst vildi ég horfa á djúpa sci-fi hrollvekju með útpældum skilaboðum sem væri svo spennandi að ég þyrfti að krossleggja lappir til að míga ekki á mig. En svo fær maður bara rétt svo að finna smjörþefinn á þessu öllu.

Í smástund hélt ég að þetta væru bara óhjákvæmileg eftiráhrif þess þegar maður gerir sér of miklar væntingar, en satt að segja gerði ég ekki miklar væntingar fyrirfram. Ég er opinn fyrir flestöllu og var innilega að vonast til þess að þessi mynd yrði mögnuð, en ég er samt ekki einn af þeim sem elskar Alien. Ég hristi yfirleitt hausinn í viðbragðsskyni þegar ég heyri að hún sé talin einhvers konar ósnertandi meistaraverk. Hún er það ekki, og hvað þá einhver albesta hrollvekja sem hefur verið fest á filmu. Ég dáist samt rosalega að henni – miklu meira en ég mun nokkurn tímann dást að þessari. Það er svosem ekki erfitt að sjá það að hún er íkonísk, flott og mikilvæg í kvikmyndasögunni á marga vegu. Sjónrænt séð mikill gullmoli, nokkrar frábærar senur og hugmyndirnar afar ljúffengar. Hún er samt hálftómleg og langt frá því að vera eins óhugnanleg og hún reynir að vera. Kannski eldist hún bara svona illa.

Mig rámar alltaf svolítið í senuna í Ed Wood þegar Bela Lugosi feilar á því að hræða lítinn dreng með þreyttri og hundgamalli taktík, og þannig líður mér oft þegar ég horfi á Alien. Það er sama hversu oft ég horfi á hana, mér líður alltaf eins og ég sé að horfa á mynd sem á að vera klukkutími á lengd og hefur verið teygð um auka fjörtíu mínútur. Samnördar mínir mega túlka flæðið á myndinni sem einhvern ofsalega brothættan strúktúr hjá leikstjóranum til að spila með myrkur, óttann og ímyndunarafl áhorfandans, en mér fannst hann bara fylla upp í þunnt efni með prýðilega múdí andrúmslofti og litlu öðru. Ég get nefnt margar myndir þar sem langar, hægar senur vinna með myndum frekar en gegn þeim, en Alien er ekki ein þeirra. Hingað til hef ég oftast bara litið á hana sem nauðsynlegan ramp fyrir það sem James Cameron betrumbætti í einni bestu hasarmynd allra tíma – en hrukkur eru því miður farnar að sjást á henni líka.

Það er ýmislegt sem virkar gallalaust við Prometheus, til dæmis Michael Fassbender, sem er (hvað annað?) æðislegur sem vélmennið David. Það verður aldrei leiðinlegt að fylgjast með honum því hann fær bestu frasana og er umhugsunarlaust allra eftirminnilegasti karakterinn. Að vísu á ég enn eftir að ákveða hvort mér hafi líkað vel við ófyrirsjáanlega „eðli“ hans eða hvort handritið hafi bara skrifað hann sem karakter sem tekur óskiljanlegar ákvarðanir, sem eru aldrei útskýrðar. Það er samt stór galli í allri sögunni líka, og það kemur alveg furðulega oft fyrir að persónur geri eitthvað spes eða heimskulegt. Noomi Rapace fær síðan að reyna fast á leikhæfileika sína á enskri tungu, sem hún hefur aldrei gert áður með svona kröfuhörðum tilþrifum. Hún kemur agalega vel út (töluvert betur en í Sherlock Holmes); sterk, aðlaðandi og trúverðug. Hún er einnig sú sem á mest taugatrekkjandi atriði myndarinnar, sem myndin nær síðan aldrei að toppa.

Aðrir leikarar taka áhugasaman þátt í geðveikinni og reynir handritið skömmustulega að sannfæra mann um að einhver persónudýpt sé dreifð hér og þar, en hún er merkilega óljós og er oftast redduð bara með bjánalegum hætti þar sem hlutir eru útskýrðir, eða heldur stafaðir út. Þarna myndast óttalegt ójafnvægi í handritinu (enn og aftur) vegna þess að stundum finnst manni eins og sé verið að útskýra fullmikið, en svo er fullt af ósvöruðum spurningum líka. Bæði eru þetta plottholur og pælingar sem bjóða upp á hitaðar umræður.

Ýmsir karakterar eru líka sama og óþarfir, og gera ekkert annað en að standa um áður en þeir breytast í fórnarlömb. Sumar stóru persónurnar eru samt með svo grunna prófíla að þær eiga vara skilið að vera með skírnarnöfn. Leikararnir hafa heldur ekki margt til að vinna með fyrir utan hræðslusvipi og panikk. Charlize Theron leikur sálarlausa fyrirtækjafíflið sem fylgir oftast öllum Alien-myndunum. Logan Marshall-Green er nánast alveg persónuleikalaus sem fornleifafræðingur sem lítur meira út eins og nærfatamódel. Guy Pearce fær svo að þykjast vera gamall og Idris Elba er sami alltaf sami töffarinn í bakgrunninum. Þeir sem sjá mikla dýpt í persónum myndarinnar eru að lesa of ýtarlega í hlutina. Ég ætla rétt að vona að einhvers staðar sé til lengri útgáfa af þessari mynd, því Scott er ekki vanur að sætta sig við svona litla persónusköpun nema framleiðendur ráðist á verkið í klippiherberginu.

Í útlitsdeildinni er Prometheus alveg að ná öllu réttu, enda frábær tæknibrellur, klikkuð kvikmyndataka, flott landslag (dö…!) og Charlize Theron í þröngum galla svo eitthvað sé nefnt. Andrúmsloftið og sviðshönnunin sver sig auðveldlega í ætt við Alien en stíllinn hermir samt aldrei beint eftir og er yfir höfuð bjartari hér en í upprunalegu myndinni. Kaldhæðnislega vantar samt allan drungann í myndina þótt eitt eða tvö sjokk-atriði hafi brugðið fyrir. Það er nóg af óþægindum en skortur á hjartastoppandi spennu dregur aðeins úr stuðinu (fyrir utan eitt mergjað atriði í sjúkrahylki, sem að mínu mati trompar upprunalega John Hurt-mómentið sem allir þekkja). Hugmyndirnar eru metnaðarfullar og skemmtilegar en gloppótt handritið vinnur vandvirknislega úr þeim. Söguþráðurinn lofar góðu í fyrstu en plottholum fer svakalega fjölgandi í seinni hlutanum og tekst mér ekki að hundsa þær ef ég reyni (og guð, hvað ég reyndi!).

Ef það er eitthvað sem ég elska meira en sci-fi, þá er það sci-fi með heila og hugmyndaflug. Prometheus býður upp á nokkra litla hluti sem mér finnst eiga heima í ótvíræðu snilldarverki. Hún snertir stórar umræður og maður sér auðveldlega peninginn á skjánum sem fór í hana. Scott hefur aldrei verið lélegur í því að draga mann inn í spennandi bíóheima og hér sýnir hann klærnar en þó frekar sparlega. Það er eitthvað við sluksið í handritsgerðinni sem kemur í veg fyrir að myndin nái þeim hæðum sem maður hefði aldeilis viljað. Þetta er heldur ekkert lítið sluks. Leiðinlegt er líka hvað myndin reiðir sig ferlega mikið á svokallað „fan service“ (sérstaklega alveg í lokin!) og kemur meira út eins og uppstilling frekar en sjálfstæð upplifun.

Director’s Cut-útgáfa væri nokkuð vel þegin. Ekki nema myndin sé bara viljandi svona asnalega opin, eins og hún sé gerð með framhald í huga.


(6/10)