10 myndir keppa um Óskar

Óskarsakademían
í Hollywood hefur ákveðið að 10 bíómyndir verði tilnefndar þann 2. febrúar nk. sem besta mynd
ársins á næstu Óskarsverðlaunum, í stað 5 eins og verið hefur lengi vel.

Þessi
ákvörðun er tekin til að beina kastljósinu að fleiri myndum ár hvert en verið
hefur.

Sid Ganis
forseti akademíunnar segir að ákvörðunin sé einskonar afturhvarf til fortíðar
þegar 10 eða jafnvel fleiri myndir voru tilnefndar ár hvert, en síðast voru 10
tilnefndar árið 1943.

Þessi
ákvörðun er talin geta bætt áhorfið á Óskarsverðlaunahátíðina sem hefur farið
minnkandi síðustu ár. Mótmæli frá aðdáendum
The Dark Knight , sem vildu sjá þá mynd tilnefnda, eru einnig talin
hafa haft áhrif á ákvörðun akademíunnar en myndin hefði líklegast náð tilnefningu ef 10 myndir hefðu verið tilnefndar í ár.

Ein hugmynd
sem hefur verið uppi í þessu samhengi er að skipta tilnefningunum í tvennt og
hafa drama og gamanmyndaflokk,, líkt og gert er á Golden Globe. Það er þó talið ólíklegt.

Ganis segir
að það að fjölga myndunum muni ekki draga niður vægi tilnefndra mynda, enda
koma 300 myndir ár hvert til greina sem besta mynd. „Að komast í 10 mynda úrval
er samt mikið afrek,“ sagði Ganis á fundi með blaðamönnum í gær. Óskarsverðlaunin verða næst veitt þann 7. Mars nk., í 82. skipti.