Skrímsli í bíómyndum eru af öllum stærðum og gerðum. Þau smæstu hafa ekki síður skapað glundroða og ótta í heiminum eins og þau allra stærstu sem ráðast á heilu borgirnar og háma mannfólkið í sig eins og smartís.
Vefsíðan Screenrant.com hefur tekið saman lista yfir 10 hræðilegustu skrímsli kvikmyndasögunnar. Eins og gefur að skilja komust mörg hræðileg skrímsli ekki inn á þennan lista, enda úr mörgum að velja, og sum var erfitt að setja á listann þar sem þau sjálf voru ekkert endilega hræðileg, eins og til dæmis geimverurnar í War of the Worlds og Independence Day. Þær komu til jarðar í ógnarstórum geimskipum sem gátu gereytt heilu borgunum, en voru sjálfar bara venjulegar litlar og sætar geimverur, ekkert sérstaklega hræðilegar.
Einnig eru skrímsli eins og risaapinn King Kong sem ekki komst inn á listann, en eins og ScreenRant segir þá er hann ekkert sérstaklega skelfilegur í sjálfu sér, sérstaklega eftir meðferð Peter Jackson á honum í síðustu King Kong myndinni, sem gerir hann mannlegan frekar en hitt.
En hér fyrir neðan er listinn. Ef þú hefur athugasemdir við listann, þá máttu endilega segja þína skoðun í athugasemdum – og það er rétt að vara við því að í listanum geta verið SPOILERS, þ.e. atriði sem opinbera eitthvað um plott myndar.
10. 15 metra háa konan – The Attack of the 50 ft Woman
Þessi ófreskja er óvenju töfrandi í eðli sínu, skiljanlega. Þessi risavaxna kona sem myndin er um er ekki endilega að ógna heiminum sem slíkum, þó svo að hún geti trampað ofaná þér, heldur vill hún hefna sín á ótrúum eiginmanni sínum og hjákonu hans.
9. Risamaurar – Them!
Ein af fáum hreinræktuðum skrímslamyndum sem hefur farið út fyrir sinn flokk og keppt um Óskarsverðlaunin var skrímslamyndin Them! en hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir tæknibrellur.
Myndin var frumsýnd árið 1954 og á þeim tíma voru risamaurarnir í myndinni raunverulegri en nokkuð risaskrímsli í bíómyndum hafði verið fram til þess tíma.
Á þessum tíma var kjarnorkuváin að byrja að aukast í heiminum og maurarnir áttu að hafa stökkbreyst vegna geislunar og orðið risastórir og hræðilegir eftir því.
Myndin byggir upp spennu með því að sýna ekki maurana fyrr en vel er liðið á myndina, og fólk hefur horfið á dularfullan hátt fram að því.
8. Beðu skrímsli – The Mist
Það eru svo mörg skrímsli í The Mist að myndin gæti ein og sér haft sinn eigin topp 10 lista yfir skrímsli. Eftir því sem lengra er komið inn í myndina þá stækka skrímslin og verða illskeyttari þar til eitt skrímsli mætir á svæðið sem á heima á þessum topplista. Þar er um að ræða skordýr af tegundinni beiða sem kemur fram á sjónarsviðið undir lok myndarinnar.
Jafn erfitt og það er að sjá skrímslið í þykkri þokunni, þá eru hljóðin í því þeim mun ógnvænlegri, og ekki síður skýtur það manni skelk í bringu þegar fólk hverfur skyndilega upp í loftið eða bílar eru kramdir eins og pappakassar.
7. Sykurpúðakarlinn – Ghostbusters
Eitt fyndnasta og skelfilegasta skrímsli allra tíma kemur fram í gamanmyndinni Ghostbusters. Það er fátt eins hræðilegt og gríðarlegur sykurpúðakall með ill áform.
Eitt það versta við sykurpúðakallinn er að þurfa að þrífa hann af byggingum og götum eftir að búið er að gereyða honum og sykurpúðarnir hafa klínst upp um allt og alla – ekki skemmtilegt verkefni.
6. Tyrannosaurus Rex – Jurassic Park I-III
Það má segja að T-Rex sé ekkert sérstaklega stór í samanburði við mörg önnur skrímsli hér á listanum, en hann nær inn á listann af því að hann eirir engum og vill drepa allt og alla, er miskunnarlaus og grimmur. T-Rex er sex metra hár og vegur átta tonn, þannig að hann er samt engin smásmíði, og sannarlega skrímsli í öllum merkingum þess orðs.
T-Rex er mannætumaskína og milli þess sem hann hámar í sig mannfólk, þá eyðileggur hann allt sem hann kemst í tæri við.
Eftirminnilegasta svona senan með honum er þegar hann er á flótta í San Diego í seinni helmingi Jurassic Park II. Hann ráfar banhungraður og ráðvilltur um götur San Diego, og veldur uppnámi og eyðileggingu. Á einum tímapunkti hendir hann strætisvagni í gegnum Blockubuster vídeóleigu.
5. Risasmokkfiskur – 20.000 Leagues Under The Sea
Eins og fyrr sagði þá kom risamauramyndin Them! út árið 1954, en sama ár kom Walt Disney út með sína eigin skrímslamynd. Þar var um að ræða myndina 20.000 Leagues Under The Sea, en myndin vann Óskarsverðlaun fyrir bæði listræna stjórnun og tæknibrellur, og tilnefningu fyrir klippingu.
Skrímslið í myndinni hrellir sjómenn á hafi úti strax í upphafi myndar, en síðan byrjar spennan fyrir alvöru þegar yfirvöld senda prófessor Arronax í leiðangur til að athuga hvort þetta skrímsli sé raunverulegt eða ekki.
Í rauninni sést skrímslið ekki í mörgum atriðum í myndinni, en þegar það sést eru það minnisstæðustu atriði myndarinnar. Aðalpersónur myndarinnar berjast við þennan risavaxna smokkfisk í aðal spennuatriðum myndarinnar.
Í raun hefði þessi smokkfiskur átt skilið að sjást mun meira í myndinni. Þess ber að geta að nýlega heyrðist af því að leikstjórinn David Fincher ætlaði að endurgera myndina, þannig að nú bíðum við spennt eftir að sjá meira af þessu skrímsli, með nútíma tækni!
4. Nafnlaust skrímsli – Cloverfield
Í Cloverfield var eftir fremsta megni reynt að fela skrímslið þar til hámarki myndarinnar er náð. Sumir urðu fyrir vonbrigðum með undarlegt útlit skepnunnar, en það er engin spurning að þetta var eitt klikkaðasta skrímsli sem gert hefur atlögu að New York borg.
Ástæðan fyrir því að skrímslið er svona gott liggur í því hvernig kvikmyndagerðarmennirnir sköpuðu það. Þeir hafa oft talað um að skrímslið hafi ekki átt að vera þetta dæmigerða skrímsli sem ræðst á allt og alla með offorsi heldur á það að vera eins og ungabarn, hrætt við heiminn sem það er komið inn í og litlu verurnar, mennina, sem ráðast á það. Skrímslið reyndi í örvæntingu að sleppa, en rataði ekki út úr frumskógi borgarinnar.
Það er engin spurning að skrímslið gjörsamlega endurhannaði útlit borgarinnar, en það var einkum vegna þess að það klessti á- og datt á skýjakljúfa. Eina skiptið sem skrímslið virtist ráðast vísvitandi á byggingu var þegar það hjó höfuðið af Frelsisstyttunni.
3. Gwoemul – The Host
Stundum er mynd svo góð að hún nær athygli langt út fyrir sína „tegund“ myndar. The Host er ein þekktasta alþjóðlega bíómynd seinni tíma ( þ.e. ekki bandarísk ) og verðskuldar mikla aðdáun, enda táknræn í meira lagi. Rétt eins og Godzilla var táknmynd Japana fyrir kjarnorkuárás Bandaríkjamanna, þá er The Host háðsádeila fyrir ofurvald ríkisins.
Skrímsli geta eðlilega táknað marga hluti sem ráðskast með fólk og ógnar því, en það þarf líka að hræða líftóruna úr fólki, annars er það gagnslaust. Skrímslið í The Host er svo tryllt og óútreiknanlegt, að það breytir myndinni í hryllingsmynd.
Það er meira vitundin um tilvist þess sem skapar ógnina og spennuna heldur en eyðileggingarmáttur þess. Spurningin er í raun sú hvort að stærð þess skipti í raun máli; það er nógu stórt tli að eyðileggja brýr, þannig að það er í raun risavaxið.
2. The Kraken – Pirates of the Caribbean, Clash of the Titans
Það skiptir eiginlega ekki máli hver það er sem berst við The Kraken, það má alltaf stóla á yfirgengilega stærð þess. Hrikalegar tennur ógna öllu sem kemur nálægt kjafti þess. Flestar árásir skrímslisins eiga sér stað úti á hafi, en eins og sést í Clash of the Titans, þá kemur það einnig að landi og eyðileggur hafnir og hafnarsvæði.
Til allrar óhamingju þá verður fullt af saklausu fólki fyrir barðinu á ófreskjunni, sem eirir engu og engum. Það sem reyndar gerir The Kraken sérstakt er að það þarf alltaf einhver að kalla á það. Í Clash of the Titans þá er það Zeus sem sleppir því lausu og í Pirates of the Caribbean þá er það Davy Jones sem kallar á það. En þeir sem kveðja það til, hafa mjög takmarkaða stjórn á því, samt sem áður.
The Kraken er án efa eitt hættulegasta skrímsli sem nokkurn tímann hefur verið fundið upp, og það er eins gott að verða ekki í vegi þessi, eða amk. forðast þá sem geta kallað í það!
1. Godzilla – Godzilla
Godzilla hefur gengið í gegnum ýmsar breytingar í gegnum árin, en eitt er víst að þessi risastóra eðla hatar ( nánast ) allt. Skrímslið hefur að mestu eytt lífi sínu í að berjast við önnur skrímsli, en saklaust mannfólkið og þeirra bústaðir hafa einnig lent undir í þeim viðureignum.
Godzilla er í raun svo mikil stjarna að hún er með sína eigin Hollywood stjörnu. Skrímslið kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1954 í Japan og hefur síðan þá birst oft og mörgum sinnum í bíómyndum og í sjónvarpi. Í bandarísku Godzilla myndinni frá árinu 1998 eftir Roland Emmerich, þá var skrímslið þó gert heldur vanmáttugt og var meira í vörn en sókn, þó eyðileggingin af völdum þess hafi verið engu lík.
Godzilla er því skelfilegasta skrímsli bíómyndasögunnar.
ps. Von er á nýrri Godzilla mynd frá Hollywood á næsta ári, 2014 í leikstjórn Gareth Edwards.