Og er Bond 23 komin með nafn? –
Skv. skemmtanafréttadálki skrifuðum af Baz Maigoye í breska slúðurblaðinu Daily Mail, hefur franska leikkonan Berenice Marlohe hreppt hlutverk í næsta ævintýri James Bond, sem verður það 23 í röðinni. Venjulega telst það ekki frásögu færandi hvaða „fréttir“ má lesa í gulu pressunni, en ástæðan fyrir því að þú ert að lesa þessa frétt er að Baz þessi Maigoye hefur unnið sér inn ákveðið traust, hann greindi td. fyrstur frá því að Ralph Fiennes og Javier Bardem myndu fara með stór hlutverk í myndinni.
Ekki mikið er vitað um hlutverk Marlohe, en giska má á að hún leiki fallega stúlku sem verður fyrir vegi Bonds, og fellur fyrir honum. Einnig segir fyrnefndur slúðurdálkur að breska leikkonan Helen McCrory sé genginn til liðs við myndina, en hún er lesendum kvikmyndir.is eflaust þekktust í hlutverki Narcissa Malfoy í Harry Potter myndunum. Erfiðara er að giska á hlutverk hennar í myndinni.
Daniel Craig stríddi blaðamönnum fyrir stuttu með því að staðfesta að myndin væri komin með titil, en vildi ekki gefa hann upp. Nú telja vefmiðlar sig kannski mögulega vera búna að uppgötva titilinn á Bond 23: Skyfall. Þetta grunar menn vegna lénaskráningar Sony, en þann 3. október keypti fyrirtækið eftirfarandi lén: jamesbond-skyfall.com, jamesbond-skyfall.net, jamesbondskyfall.com, jamesbondskyfall.net, skyfall-film.net, skyfall-thefilm.com, skyfall-thefilm.net, skyfall-themovie.com, skyfall-themovie.net, skyfallfilm.net, skyfallmovie.net, skyfallthefilm.com, skyfallthefilm.net, skyfallthemovie.com and skyfallthemovie.com. Dæmi hver fyrir sig.
Nafnið á síðustu Bond mynd, Quantum of Solace, var uppgötvað á svipaðan hátt, tveimur dögum fyrir tilkynningu um nafn myndarinnar. Nú eru hinsvegar liðnir meira en tveir dagar og við höfum ekkert heyrt. Þetta yrði fyrsti eins orðs titillinn síðan að Goldeneye kom út árið 1995, og fyrsta myndin sem ekki tæki titil frá einni af sögum Ians Flemings síðan að Die Another Day kom út árið 2002. Eftir 22 myndir eru ekki margir Fleming titlar eftir – en af þeim fáu sem ekki hafa verið notaðir voru Risico, A Property of a Lady og The Hildebrand Rarity taldir líklegir titlar á næstu mynd. 007 in New York verður sennilega ekki notaður.
Tökur á myndinni hefjast nú í nóvember, hún kemur út 26. október 2012 í Bretlandi, 9. nóvember í Bandaríkjunum og líklega einhverntíman þar á milli hér á klakanum. Sam Mendes leikstýrir handriti eftir Niel Purvis, Robert Wade og John Logan. Daniel Craig, Judy Dench og Rory Kinnear snúa aftur, og Ralph Fiennes, Javier Bardem og Naomi Harris munu fara með hlutverk í myndinni.