Picturehouse hefur tekist að slíta á öll bönd frá móðurfyrirtæki sínu HBO svo þeir geti orðið sjálfstætt framleiðendafyrirtæki. Margir kannast eflaust ekki við nafnið Picturehouse, en þeir hafa samt gefið út myndir eins og Pan’s Labyrinth og La Vie en Rose. Þessar myndir voru gefnar út án samráðs við HBO en þær myndir sem Picturehouse hefur gefið út í samvinnu við HBO hafa ekki gengið vel, t.d. Rocket Science og The Notorious Betty Page.
Næsta mynd Picturehouse og HBO átti að vera Sugar, mynd sem átti að vera frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni. Eftir að það fréttist að HBO hafi verið að snuðrast fyrir um aðra framleiðendur að myndinni en Picturehouse þá slitu fyrirtækin samstarfinu í illu. Það mun líka hafa eitthvað að segja að Chris Albrecht, yfirstjórnandi hjá HBO, hætti snögglega.
Við eigum vonandi eftir að sjá meira af góðu efni frá Picturehouse, enda hafa þeirra bestu verk komið frá þeim sjálfum en ekki úr samvinnu við HBO, en það er ljóst að HBO verður að girða upp um sig buxurnar ef þeir ætla að þrífast á kvikmyndamarkaðnum eins og hann er í dag.

