Bitlaust grín með hressum leikurum

This Means War er kannski asnalegur titill en þetta er alls ekki glötuð mynd. Það eru kaflar sem eru býsna fyndnir og skemmtilegir – þótt þeir séu nú ekki voða margir – og mér finnst alltaf gaman að sjá þegar góðir leikarar sýna á sér nýja hlið. Myndin er samt heldur ekki góð. Hugmyndin um tvo spæjara að (bókstaflega) berjast um sömu gelluna er nokkuð fín í sjálfu sér þar sem hún býður upp á mörg yfirdrifin og kómísk tækifæri. En þar sem þetta er vægast sagt gamall efniviður þyrfti hún helst að taka áhættur með efnið til að heildin gæti gengið upp.

Þetta er týpísk rómantísk gamanmynd, bara með smákryddi, eða öllu heldur ranghugmyndir um að hún sé líka einhvers konar léttlynd hasarmynd (eða sykruð buddy-mynd sem heldur að hún sé rómantísk hasarmynd – þið ráðið). En með miklum áhuga og traustu handriti hefði ábyggilega verið hægt að móta úr þessu hið fínasta bíó þótt dæmigert sé.

Myndin hefur hins vegar ekki traust handrit, heldur handrit sem er svo aumt, dapurt, klisjukennt og bitlaust að ég er alveg orðlaus yfir því að aðalleikararnir ná samt sem áður að koma þokkalega vel út á skjánum. Ekki nóg með það að handritið sé helsta undirstaðan fyrir helstu göllum myndarinnar, þá er áhuginn er ekki einu sinni það mikill. Það gefur strax upp þá hugmynd að leikstjórinn hafi bara tekið við þessu svakalega commercial-verkefni til að vinna með hressum leikurum og græða sem mestan pening án þess að svitna of mikið. Myndin reynir líka svo sterkt á sig til að höfða til beggja kynjanna að hún sprengir næstum því æð. Það er alveg hægt að búa til stelpumynd sem höfðar til stráka, og strákamynd sem höfðar til stelpna, en þegar myndin reynir að vera bæði og þá með slíkum lágmarksmetnaði í efninu eru feilsporin algjörlega óhjákvæmileg.

Það er samt svo skrítið hvernig myndinni tekst ekki að vera þessi skothelda afþreying sem hún hefði getað orðið, eða nánar til tekið skil ég ekki hvernig ekki var krafist þess að fara betur yfir handritið. Allt annað virðist virka prýðilega, eða að minnsta kosti það sem skiptir mestu máli, aðallega Chris Pine og Tom Hardy. Báðir þessir leikarar eru búnir að vera á rjúkandi uppleið í bransanum og það sést að þeir eru ekki mikið að sluksa hérna. Kemistrían er góð, orkan ekki fjarverandi og maður fær þá tilfinningu að þeir hafi notið samveru hvors annars á settinu bara nokkuð vel. Reese Witherspoon er einnig þolanleg sem þessi blondína sem þvælist á milli þeirra, en í samanburði við þá er hún ekkert ógurlega spennandi karakter og ég get heldur ekki sagt að ég hafi verið nagandi á mér neglurnar yfir því hvort það yrði Pine eða Hardy (eða báðir/hvorugir) sem fengi hana á endanum.

Pine er samt mest á heimavelli þegar honum er ætlast til að leika sjálfskipaðan töffara sem er ástfanginn af sjálfum sér, og maður þarf eiginlega að rembast við það að tengja frammistöðuna ekki við Kirk úr Star Trek. Hlutverkið er samt eins basískt og það gerist í svona mainstream-froðu og þróun karaktersins er fyrirsjáanlegri heldur en allt. Pine sleppur samt vegna þess að hann er ekki sofandi í gegnum hlutverkið sitt, eins og margir myndu kannski gera. Hann reynir svolítið á sig en gengur aldrei langt yfir línuna.

Hardy er síðan alltaf ánægjulegur til áhorfs, einfaldlega vegna þess að þetta er einn mesti töffarinn á lífi í dag. Sú hlið er samt ekki beint ríkjandi hérna (fyrir utan eina sjúkt fyndna Paintball-senu) og í hreinskilni sagt er mjög einkennilegt að sjá þennan mann mýkja sig töluvert fyrir svona „einnota“ bíómynd. Hardy er og hefur hingað til verið alvöru leikari, en ekki þessi týpíska Hollywood-stjarna. Upp á fjölbreytnina að gera er ekki leiðinlegt að vita það að hann kann að redda sér í svona hefðbundnum rullum, en ef það er eitthvað sem fyrri myndirnar hans segja manni, þá er það að hann á eitthvað svo miklu, miklu bitstæðara skilið. Og eftir þetta finnst mér ekki spurning um annað en að einhver ætti að bjóða honum betra grínhlutverk.

Engum er samt sóað jafnmikið og þýska leikaranum Til Schweiger í hlutverki illmennisins. Ekki það að ég sé að segja að Schweiger sé fyrirmyndarleikari, en hann hefði átt að kasta handritinu framan í leikstjórann og krefjast einhvers meira. Orðið vannýttur hefði verið talsvert skref upp frá því sem hann fékk, því handritið (endalaust vesen, þetta handrit!) veit nákvæmlega ekkert hvað á að gera við hann út alla söguna.

Strúktúrlega séð minnir þessi mynd á miklu, miklu verri útgáfu af True Lies. Sagan býður upp á stuttan hasar í byrjuninni, til að sýna það að myndin eigi að vera skemmtileg og líka til þess að áhorfandinn viti hver vondi kallinn er. Svo kemur í ljós að þessi hasar var í rauninni ekkert nema aukaplott sem var sérstaklega sett í gang til að myndin hefði afsökun til þess að koma með stóra hasarinn í lokin (því annars myndi ekkert merkilegt gerast á þeim tímapunkti). Miðbikið snýst allt um einn öfgakenndan gamanfarsa, á meðan Til Schweiger gerir ekkert nema að bíða eftir lokasenunum. Svo loksins þegar farsagangurinn er búinn og endaspretturinn byrjar, þá veldur hann sárum vonbrigðum. Bæði vegna þess að vondi karlinn skildi minna eftir sig heldur en skrifborðin sem þeir Pine og Hardy áttu í myndinni, og líka vegna þess að ég veit fullvel að leikstjórinn getur betur en þetta.

McG er mun skárri leikstjóri en margir gera sér grein fyrir en auðvitað sést langar leiðir að hann kann ekkert á gott innihald (fyrir utan We Are Marshall – sem kom mér pínu á óvart). Þrátt fyrir það er McG maður sem á heima í afþreyingargeiranum enda á góðum degi flinkur með útlit, stílbrögð og (í mörgum tilfellum) tónlistarval, og þess vegna er ég frekar hissa yfir þeirri leti sem hann sýnir hér. Hann sinnir þeirri lágmarksvinnu sem er ætlast til af honum en gerir ekkert til að bragðbæta hana. Einnig er hann oft ómögulegur með tímasetningu húmors. Maður finnur oft fyrir því að eitthvað ætti að vera miklu fyndnara en það er, og þegar hvorki Pine né Hardy er á skjánum til að redda sér með líflegum töktum eða spuna, þá er stemmningin ferlega vandræðaleg. Svo býst ég við því að mörgum eigi eftir að finnast Chelsea Handler ofsalega fyndin, en ég sá bara þreytta stereótýpu sem ég fékk leið á eftir tvær senur.

Það er margt hægt að segja slæmt um This Means War, og eiginlega of mikið, en þegar uppi er staðið er þetta ekki nógu leiðinleg eða móðgandi mynd til að verðskulda sterkt hatur. Leikararnir sjá til þess að þú nennir að klára þessa ræmu, og sem betur fer er hún ekki mikið lengri en 90 mínútur.


(5/10)