Freud sest í aftursætið

Alveg sama hversu djarfar, abstrakt, vandaðar eða athyglisverðar sumar myndirnar hans eru, þá er David Cronenberg sjaldan maður að mínu skapi. Það er alltaf margt til að dást að hjá honum, en sjaldan nóg til að heilla mann alveg og það gerist stórfurðulega oft þegar flestar myndirnar hans eru nýbúnar, að mér líður alltaf eins og ég hafi horft á eitthvað ágætt (stundum truflandi) og tilkomumikið sem gat samt orðið miklu betra. Þess vegna kom það mér ekki beinlínis á óvart að mér hafi liðið, enn og aftur, nákvæmlega þannig þegar A Dangerous Method kláraðist. Myndin hefur marga kosti en hún rétt svo leyfir manni að finna smjörþefinn af gífurlega góðu og fjandi áhugaverðu efni sem hefði átt að vera betur unnið í höndum annarra fagmanna.

Það er aldrei dauðan punkt að finna í allri myndinni, en hún er svo sem ekki nema níutíu mínútur þegar hún hefði mátt vera lengri, dýpri og bitastæðari. Engu að síður er handritið prýðilega unnið og rennur sagan á hentugum hraða þótt ég gæti aldrei gengið svo langt að kalla myndina grípandi. Ég á samt bágt með að trúa því að hér hefði ekki verið góður grunnur að einhverju frábæru, bæði út af umfjöllunarefninu og ekki síst aðalleikurunum. Handritið býður upp á mismikið fyrir hverja persónu, sem er ansi leiðinlegur galli, en enginn lætur það stoppa sig frá því að vinna sína vinnu eftir bestu getu.

Sögulegu fígúrurnar sem maður las oft um í denn vakna algjörlega til lífsins með hjálp frá reyndum myndarmönnum. Michael Fassbender er náttúrlega löngu kominn í meistaradeildina og þess vegna á maður aldrei von á slakri frammistöðu frá honum. Við höfum öll séð hann öflugri, en sem svissneski geðlæknirinn Carl Jung er hann áberandi lágstemmdur, án þess að það sé meint á neikvæðan hátt. Það er nú líka merki um fagmann þegar honum tekst að gera einmitt lágstemmda rullu svona kjötaða.

Keira Knightley er sú sem sér um að vera allt annað en lágstemmd, eða alla vega í fyrri hluta myndarinnar, þar sem hún iðar, gargar og grettir sig svo óþægilega að áhorfandinn fer sjálfur að iða í sætinu bara við það að horfa á hana. Knightley getur verið frábær leikkona en ég hef á tilfinningunni að Cronenberg hafi bara verið óákveðinn með hana hér. Hlutverkið er augljóslega krefjandi og leikkonan leggur sig alla fram (og hef ég hingað til aldrei séð hana svona andlega berskjaldaða á skjánum), en málið er að hún er stundum geggjuð (pun intended) en stundum skilur maður ekkert hvaðan ofleikurinn kemur. Bjagaði, óreglulegi rússneski hreimurinn hennar hjálpar henni heldur ekkert sérstaklega, en henni til varnar, þá er hún að leika manneskju sem talaði þýsku með rússneskum hreim. Og þegar myndin er á ensku, er ekki erfitt fyrir eina leikkonu að ruglast aðeins í rýminu.

Viggo Mortensen er ekki lengi að sannfæra mann um að hann geti alveg tekið sig vel út sem umdeildi perrinn hann Sigmund Freud. Mortensen er góður enda vinnur hann vel með Cronenberg (greinilega mikið traust á milli þessara manna, ef menn hugsa t.d. út í hnífabardagann í Eastern Promises, sem ekki allir leikarar myndu treysta sér í) en hins vegar gefur handritið manninum ekkert til að leika sér með. Freud er sýndur sem afsakplega einhliða týpa og miðað við hversu stóran þátt hann spilar í persónuþríhyrningnum, er óásættanlegt hve lítið við fáum að kynnast þessum merka manni. Samband Freuds og Jung hefði átt að standa langt upp úr, og það virðist stundum eins og það skipti söguna heilmiklu máli, en það vantaði meiri áherslu á það. Samband Jungs við Sabrinu Spielrein hefði einnig átt að vera sjúklega athyglisvert en ég fann hvergi fyrir því að Cronenberg væri á sömu skoðun og þess vegna varð þróunin á því voðalega hefðbundin. Ég var samt pínuhissa á því hversu eftirminnileg Vincent Cassel og Sarah Gadon voru og var ansi áhugaverða prófíla að finna í þeirra persónum þrátt fyrir örlítinn skjátíma.

Þar sem A Dangerous Method er lítil, róleg, samtalsdrifin saga kemur alls ekki á óvart að hún skuli vera byggð á leikriti, og það virðist vera að handritshöfundur myndarinnar skrifaði hvort tveggja. Kannski er myndin mjög trú sviðssýningunni, en án þess að vita neitt um það myndi ég ekki kalla það afsökun til að skafa af pörtunum sem virðist skipta talsverðu máli. Það er samt eiginlega ekki hægt að kalla þetta miðjumoð því myndin hélt athygli minni þokkalega þó svo að þetta sé klárlega dálítil sóun á góðu efni, og þá með áhugasömum leiktilþrifum en á móti  var áhugalaus leikstjóri. En kannski eru sálfræðinemarnir ekki jafnkröfuharðir og ég.


(6/10)