Spennutryllirinn Taken 2 tók Bandaríkjamenn með trompi um helgina, og fór beint á topp bandaríska aðsóknarlistans og þénaði 50 milljónir Bandaríkjadala þessa fyrstu sýningarhelgi sína. Í Taken 2 er Liam Neeson mættur aftur sem fyrrum leyniþjónustumaðurinn Bryan Mills, en í fyrri myndinni var dóttur hans rænt af alþjóðlegum mansalshring. Mills er ekki heppnari en svo, að nú lendir hann aftur í því að skyldmennum hans er rænt, en nú ræna þeir bæði eiginkonu hans og Mills sjálfum, sem þeir hefðu reyndar betur látið ógert …
Hotel Transylvania, sem var á toppi listans um síðustu helgi, fór niður í annað sæti með 26,3 milljónir Bandaríkjadala í tekjur, og gaman – og söngvamyndin Pitch Perfect stökk upp í þriðja sætið, en árangur þeirrar myndar kom mjög á óvart um síðustu helgi þegar hún lenti í sjötta sæti.
Framtíðar- og tímaferðalagstryllirin Looper datt niður í fjórða sæti. Frankenweenie, ný teiknimynd Tim Burton, olli vonbrigðum, og þénaði einungis 11,5 milljónir Bandaríkjadala í fimmta sætinu, þrátt fyrir að hafa verið tekin til sýninga á 3.005 bíótjöldum.
Í sjötta sæti listans er End Of Watch, Trouble With The Curve í því sjöunda, í áttunda sæti er House At The End Of The Street, með Hunger Games stjörnunni Jennifer Lawrence. The Master situr í níunda sæti eins og í síðustu viku, og í því tíunda er Finding Nemo í þrívídd.
Hægt er að lesa gagnrýni Kvikmyndir.is um Taken 2 hér.