Margfaldur morðingi þénar mest

Bandarískir bíógestir voru hrifnastir af hryllingsmyndinni Paranormal Activity 4 um helgina, en myndin fór á topp aðsóknarlistans í Bandaríkjunum þessa frumsýningarhelgi sína. Myndin þénaði 30,2 milljónir Bandaríkjadala, sem er 42% minna en síðasta mynd gerði, Paranormal Activity 3.

Sagan í Paranormal Activity 4 gerist árið 2011, fimm árum eftir að Katie drap kærasta sinn Micah, systur sína Kristi, eiginmann sinn Daniel og tók barnið sitt, Hunter ( sem nú heitir Robbie). Sagan snýst um Alice og móður hennar, sem upplifa furðulega hluti eftir að nýju nágrannar þeirra ( Katie og Robbie ) fluttu í bæinn.

Í frétt The New York Times er bent á að það hafi aðeins kostað 5 milljónir dollara að gera Paranormal Activity 4, og aðstendendur geti því kæst yfir árangrinum. Myndin þénaði auk þess 26,5 milljónir dala utan Bandaríkjanna.

Ekki er kominn opinber frumsýningardagur fyrir myndina á Íslandi.

Mynd Ben Affleck, Argo, var í öðru sæti um helgina, sína aðra viku á lista, með 16,6 milljón dala tekjur, og hefur nú þénað 43,2 milljónir dala í Bandaríkjunum frá frumsýningu um þar síðustu helgi. Hotel Transylvania lenti í þriðja sæti og seldi bíómiða fyrir 13,5 milljónir Bandaríkjadala, og hefur nú þénað 119 milljónir dala í Bandaríkjunum á fjórum vikum. Leyniþjónustumaðurinn Brian Mills, í túlkun Liam Neeson, lenti í fjórða sæti í Taken 2 og Alex Cross lenti í fimmta sæti með 11,8 milljónir dala í tekjur.