Hancock í bullandi vandræðum!

Margir hafa eflaust tekið eftir plakötum í kvikmyndahúsum á Íslandi sem tilkynna frumsýningu næstu myndar stórleikarans Will Smith, en hún ber nafnið Hancock og á að vera ansi sterkur eftirleikur Smith, en hann gerði síðast I am Legend.

Heimsfrumsýningin átti að fara fram í Ástralíu í júní. Kvöldið átti að vera risastórt, öllum heitustu stjörnunum hafði verið boðið og rauði dregillinn hafði verið dregið fram. Nú hefur þeirri athöfn verið aflýst. Orðrómurinn er sá að filma myndarinnar sé ekki tiltæk hreinlega vegna þess að myndin er ekki tilbúin!

Þetta væri skiljanlegt ef að tæknimenn og klipparar myndarinnar hefðu ákveðið að koma henni aftur á teikniborðið til að bæta tæknibrellur eða eitthvað þvíumlíkt, en ástæðan ku vera önnur. Ástæða þess að myndin er ekki tilbúin ku vera að það á að taka ný og fleiri atriði upp, sem að er venjulega gert vegna þess að almenningi eða fréttamönnum hafði verið boðið á lokaða sýningu en alls ekki líkað myndin.

Mikið verður þó að gerast venjulega til þess að mynd þurfi að fara í „endurtökur“, en þetta gæti samt ekki verið svo slæmt. Orðrómurinn er sá að I am Legend hafi farið í gegnum svipað ferli (engin frumsýningaraflýsing þó), og við sáum tvo endi á DVD disknum sem kom út fyrir stuttu (alternative endirinn er aðgengilegur á undirsíðu myndarinnar á Kvikmyndir.is)

Þegar allt kemur til alls er þetta alls ekki góðs viti fyrir útkomu myndarinnar, og margir aðdáendur eru farnir að lækka væntingarnar allhressilega.