Óskarsverðlaunaleikkonan Julianne Moore hefur upplýst að hún hafi verið rekin úr kvikmyndinni Can You Ever Forgive Me. Melissa McCarthy fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í hlutverki Lee Israel, sem Moore átti upphaflega að leika.
Í samtali við Watch What Happens Live, upplýsti Julianne að það hafi ekki verið hún sem hætti við að leika í kvikmyndinni, heldur hafi hún í raun verið rekin. „Ég fór ekki frá kvikmyndinni, ég var rekin, Nicole rak mig,“ sagði hún og átti þar við handritshöfundinn Nicole Holofcener.
Ég held að henni hafi ekki líkað við það sem ég var að gera. Við höfðum verið við æfingar og unnið að undirbúningi, en hugmynd hennar um persónuna var mjög ólík minni hugmynd um hvernig persónan ætti að vera.
Þá segir Julianne að hún hafi ekki enn séð kvikmyndina, enda væri það enn of erfitt fyrir sig að hugsa um hana.
Can You Ever Forgive Me var tilnefnd til þriggja Óskarsverðlauna; McCarthy fyrir besta leik, Richard E. Grant fyrir besta meðleik og Holofcener fyrir besta handrit eftir áður útgefnu efni. Myndin fékk á endanum engin Óskarsverðlaun.
Þá átti hlutverk Richard E. Grant, sem lék samkynhneigðan vin Lee Israel í myndinni, Jack Hock, upphaflega að vera leikið af Chris O’Dowd, og hann hefur látið hafa eftir sér að það hafi verið sárt að fylgjast með þegar viðurkenningar fyrir leik Grant hafi byrjað að hrannast upp.