Aðalleikari dönsku kvikmyndarinnar Smagen af Sult, sem er nýkomin í bíó, danska Hollywood stjarnan Nikolaj Coster-Waldau, kemur frá Ærø í Danmörku. Hann lærði leiklist í Statens Teaterskole og útskrifaðist árið 1993. Stóra tækifærið kom þegar hann lék í Ole Bornedal tryllinum Nattevagten árið eftir. Fljótlega eftir aldamótin landaði hann fyrsta stóra alþjóðlega hlutverkinu í Ridley Scott stríðsmyndinni Black Hawk Down.
Í Smagen of Sult leikur Coster-Waldau matreiðslumann sem opnar sitt eigið veitingahús ásamt eiginkonu sinni, en þau fórna öllu til að ná hinu æðsta takmarki, Michelin stjörnu.
Fyrir hlutverkið fékk leikarinn þjálfun hjá hinum þekkta matreiðslumanni Rasmus Koefoed, sem er meðeigandi að þriggja stjörnu veitingastaðnum Geranium. „Ég klæddist kokkabúning og fór inn í eldhúsið og lék kokk með hinum matreiðslumönnunum. Ég fékk að skera nokkur lítil blóm sjálfur. Ég gat ekki skemmt neitt. Ég talaði við kokkana á meðan gestirnir voru þarna, og svo mátti ég smakka dálítið af matnum. Það var algjör bónus og mjög hjálplegt, verð ég að segja,“ sagði Coster-Waldau um undirbúninginn við danska vefritið Avisen.