Hefja leik í Úkraínu

Stockfish kvikmyndahátíðin verður sett í Bíó Paradís í dag fimmtudag og stendur til 3. apríl. Opnunarmyndin er úkraínska kvikmyndin Klondike sem frumsýnd var fyrr á þessu ári og er þegar byrjuð að sópa til sín verðlaunum eins og segir í tilkynningu frá hátíðinni.

Úr opnunarmyndinni Klondike.

Sýndar verða yfir 20 alþjóðlegar verðlaunamyndir á Stockfish og fjöldi erlendra gesta sækir hátíðina heim, bæði til að fylgja myndum sínum eftir og í tengslum við Bransadaga sem haldnir verða á Selfossi.

Vann á Sundance

Klondike vann til verðlauna bæði á Berlinale og Sundance kvikmyndahátíðunum fyrr á þessu
ári. „Ljóst er að Úkraína er okkur öllum ofarlega í huga um þessar myndir og fjallar myndin að
miklu leyti um forsögu þess sem nú er að gerast þar í landi. Sögusvið myndarinnar er á tíma
stríðsins á milli Úkraínu og Rússlands árið 2014 og fjallar um fjölskyldu sem býr á
landamærunum milli landanna tveggja og neitar að flýja þótt þorpið þeirra sé yfirtekið af
rússneskum hersveitum. Aðalleikona myndarinnar Oksana Cherkashyna verður viðstödd
opnunarsýninguna og mun sitja fyrir svörum áhorfenda eftir sýningu,“ segir í tilkynningunni.

Höfundur Ralphs sem rústaði internetinu

Meðal gesta á hátíðinni er einnig Pamela Ribon sem skrifaði handrit að Disneymyndunum Moana og Ralph Breaks the Internet, en hún stendur að teiknimyndinni „My Year Of Dicks“ sem Sara Gunnarsdóttir leikstýrði, og frumsýnd verður á hátíðinni.

Þá mun David Bonneville mæta á hátíðina með mynd sína The Last Bath sem var framlag Portúgals til óskarsverðlauna. Síðasta baðið fjallar um nunnu sem er kölluð aftur í heimabæ sinn til að ættleiða fimmtán ára frænda sinn. Með þeim takast ástir og mikil togstreita milli trúar, fjölskyldu og ástar hefst í kjölfarið.

Afl bindur saman

Frá Færeyjum kemur Trygvi Danielsen með mynd sína 111 Góðir dagar sem fjallar um tvo ólíka menn sem eru sífellt að rekast á hvorn annan við undarlegar aðstæður. Síðar komast þeir að því að það er ákveðið afl sem bindur þá saman.


Hjónin Kleber Menonca Filho og Emilie Lesclaux heiðra hátíðina einnig með nærveru sinni og sýndar verða myndir þeirra Bacarau, Aquarius og Neighbouring Sounds. Allar hafa þessar myndir unnið til fjölda virtra verðlauna.
Mendonca og Lesclaux eru meðal virtustu kvikmyndagerðarmanna latnesku Ameríku samkvæmt tilkynningunni og hafa myndir þeirra náð glæsilegum alþjóðlegum árangri og hlotið á annað hundrað viðurkenninga þar á meðal Cannes.

Uppreisnargjarn persónuleiki

Nothing Compares verður sýnd á hátíðinni en hún fjallar um írsku söngkonuna Sinead O’Connor. Fjallað er í myndinni um það hvernig ferill hennar tók flugið og hvernig uppreisnargjarn persónuleiki hennar varð til þess að henni var útskúfað úr „mainstream“ poppkúltúr, eins og því er lýst í tilkynningunni. Leikstjóri myndarinnar er Kathryn Ferguson og er fókus myndarinnar á árin 1987 –1992 í gegnum linsu nútíma augans.

Fjöldi annarra mynda er sýndur á hátíðinni, en allar kvikmyndirnar eru skráðar á kvikmyndir.is og hægt er að sjá sýningartíma hér.