Persónulegri en Hollywood

Evrópsk kvikmyndahátíð í Reykjavík verður haldin 16.-25. nóvember í Bíó Paradís. Ásgrímur Sverrisson dagskrárstjóri Bíó Paradísar segir í samtali við Kvikmyndir.is að á hátíðinni sé samankominn þverskurður af bestu myndum sem komið hafa fram í Evrópu á þessu ári og því síðasta. „Þetta eru myndir sem hlotið hafa fjölda verðlauna og vakið mikla athygli um allan heim, og svo innan um eru óþekktari myndir, sem eru frábærar líka, og við viljum vekja athygli á þeim. Til dæmis eru þarna myndir sem hafa verið tilnefndar til Lux verðlauna Evrópuþingsins, en þar er oft verið að verðlauna myndir sem fá ekki eins mikla athygli og margar aðrar, en eru samt mjög áhugaverðar,“ segir Ásgrímur.

Spurður að því hvað einkenni evrópska kvikmyndagerð, segir Ásgrímur að í Hollywood séu myndir gerðar í bálkum, eða skýrt afmörkuðum flokkum, þ.e. menn geri glæpamyndir, vestra, löggumyndir, bófamyndir osfrv., en í Evrópu, og víðast hvar annars staðar líka, séu menn meira að gera persónulegar myndir, þ.e. myndir sem byggja á persónulegri sýn leikstjóranna. „Í Ameríku er þetta meiri iðnaður, þó auðvitað sé hellingur af fínum persónulegum leikstjórum þar, en þeir eru ekki eins áberandi,“ segir Ásgrímur.

11 myndir

Ellefu nýjar og nýlegar myndir eru sýndar á hátíðinni, auk þriggja eldri mynda Theo Angelopoulos sem lést fyrr á árinu. Hátíðin skiptist í fjóra hluta: Nýjar Evrópskar myndir, myndir tilnefndar til Lux verðlauna Evrópuþingsins, myndir sem fjalla um kynbundið ofbeldi og eru sýndar í samstarfi við UN Women, og loks Þagnarþríleikur Theo Angelopoulos.

Hér að neðan eru nánari upplýsingar um allar myndir hátíðarinnar:

Nýjar og nýlegar myndir: 

Alpeis (Alpar / Alps)

Grikkland, 2011. Leikstjóri: Giorgos Lanthimos. 93 mín.

Hópur fólks kemur á laggirnar fyrirtæki sem gerir út á að herma eftir látnu fólki í þeim tilgangi að hjálpa ættingjum þess í gegnum sorgarferlið. Mynd eftir hinn unga og efnilega leikstjóra Giorgos Lanthimos sem gerði m.a. myndina Dogtooth árið 2009, en sú mynd var tilnefnd sem besta erlenda myndin á Óskarsverðlaunahátíðinni. Alps hefur einnig fengið frábærar móttökur gagnrýnenda og vann m.a. til verðlauna fyrir besta handritið á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum auk þess sem hún var tilnefnd sem besta myndin á hátíðinni.

 Le Gamin au vélo (Strákur á hjóli / Kid with a Bike)

Belgía, 2011. Leikstjórar: Jean-Pierre Dardenne og Luc Dardenne. 87 mín.

Ungur drengur er yfirgefin af föður sínum og endar á ríkisreknu unglingaheimili. Hársnyrtir bæjarins ákveður, af eintómri góðmennsku, að leyfa drengnum að gista hjá sér um helgar. Tilnefnd til Golden Globe verðlauna sem besta erlenda myndin. Var einnig tilnefnd sem besta myndin á kvikmyndahátíðinni í Cannes og hlaut sérstök verðlaun dómnefndar (Grand Prize of the Jury). Þá vann hún til verðlauna fyrir besta handritið á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum auk þess sem hún var tilnefnd í flokkunum besta myndin, besti leikstjórinn og besta leikkonan.

 

Cesare deve morire (Sesar verður að deyja / Caesar Must Die)

Ítalía, 2012. Leikstjórar: Paolo Taviani og Vittorio Taviani. 76 mín.

Fangar í hámarksöryggisgæslufangelsi í Róm æfa sig fyrir uppsetningu á leikritinu Júlíus Sesar eftir Shakespeare. Cesare deve morire hlaut verðlaun sem besta myndin (Gullbjörninn) á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á þessu ári og hefur hlotið mikið og almennt lof bæði gagnrýnenda og áhorfenda. Framlag Ítala til Óskarsverðlaunanna í ár.

 

Les seigneurs (Gaurarnir / The Lords)

Frakkland, 2012. Leikstjóri: Olivier Dahan. 97 mín.

Fyrrum fótboltastjarna hefur glatað öllu sökum ólifnaðar. Hann neyðist til að flytja til lítils fiskipláss á norðurströnd Frakklands og tekur að sér að þjálfa fótboltaliðið á staðnum. Eina verksmiðjan í þorpinu og vinnuveitandi flestra íbúanna er komin í greiðslustöðvun, en vinni fótboltaliðið nokkra leiki verður hægt að safna nægu fé til að bjarga verksmiðjunni. Hin fallna stjarna ákveður að leita til nokkurra gamalla félaga sinna til að hjálpa þorpsbúum. Þessi eldfjöruga gamanmynd hefur slegið hressilega í gegn í Frakklandi að undanförnu og einn af leikurum myndarinnar er Omar Sy sem sló svo eftirminnilega í gegn í Untouchables.

 

The Deep Blue Sea (Hafið djúpa bláa)

Bretland, 2011. Leikstjóri: Terence Davies. 98 mín.

Myndin gerist um 1950 og segir frá konu bresks dómara og ástarsambandi hennar við flugmann úr konunglega breska flughernum. The Deep Blue Sea hefur fengið frábærar viðtökur gagnrýnenda og var m.a. tilnefnd sem besta myndin á San Sebastián International Film Festival og London Film Festival auk þess sem Rachel Weisz var tilnefnd sem besta leikkona í aðalhlutverki á London Critics Circle Film Awards og Evening Standard British Film Awards.

 

Une vie meilleure (Betra líf – A Better Life)

Frakkland, 2011. Leikstjóri: Cédric Kahn.110 mín.

Yann og Nadia verða ástfangin. Þau gera upp gamla byggingu í París og breyta henna í veitingastað. En hlutirnir fara ekki eins og þau héldu, hár fjármagnskosntaður gerir reksturinn erfiðan og Nadia þarf að taka að sér tímabundna vinnu í Montéal í Kanada til þess að afla aukinna tekna. Hún neyðist til að skilja son sinn, Slimane, eftir hjá Yann. Hlutirnir versna hins vegar til muna þegar Nadia hverfur sporlaust. Leikstjórinn Cédric Kahn var tilnefndur til verðlauna á Kvikmyndahátíðinni í Tokyo og annar aðalleikaranna, Guillaume Canet hlaut verðlaun sem besti leikarinn á Kvikmyndahátíðinni í Róm.

 

MYNDIR TILNEFNDAR TIL LUX VERÐLAUNA EVRÓPUÞINGSINS

Crulic – Drumul spre dincolo  (Crulic – ferðin yfirum / Crulic – The Path to Beyond)

Rúmenía, Pólland, 2011. Leikstjóri: Anca Damian. 73 mín.

Teiknuð heimildamynd um Claudio Crulic, rúmenskan mann sem dó í pólsku fangelsi árið 2008 eftir að hafa farið í hungurverkfall til að vekja athygli á máli sínu. Mál Crulic vakti mikla reiði almennings í Rúmeníu og Póllandi á sínum tíma og varð m.a. til þess að utanríkisráðherra Rúmeníu þurfti að segja af sér og þrír pólskir læknar voru ákærðir fyrir alvarlega vanrækslu í starfi.  Crulic – ferðin yfirum hlaut mikla athygli og einróma lof þegar hún kom fyrst fyrir sjónir almennings og hefur síðan sópað til sín á annan tug verðlauna á kvikmyndahátíðum víðs vegar um heiminn.

 

Tabu (Tabú)

Portúgal, 2012. Leikstjóri: Miguel Gomez. 118 mín.

Skapstygg gömul kona, þerna hennar og nágranni sem helgar sig samhjálp búa á sömu hæð í blokk í Lissabon. Þegar gamla konan deyr komast hin tvö á snoðir um leyndarmál úr fortíð hennar; æsilega frásögn um ástir og myrkraverk í Afríku sem minna mjög á gamlar ævintýrakvikmyndir. Þessi glettnislega og angurværa hugleiðing um tímann og kvikmyndirnar hefur fengið nær einróma lof gagnrýnenda. Leikstjórinn segir hana vera um hvernig tíminn líður, um hluti sem hverfa og geta aðeins haldið áfram sem minningar, skynjun og sýnir – eða sem kvikmynd. Tabu var tilnefnd til Gullbjarnarins á síðustu Berlínarhátíð þar sem hún hlaut tvenn verðlaun. Myndin hefur einnig fengið nokkurn fjölda verðlauna og tilnefninga víða um heim.

 

L’enfant d’en haut (Barn að ofan / Sister)

Frakkland, 2012. Leikstjóri: Ursula Meier. 97 mín.

Myndin gerist á svissnesku skíðasvæði og fjallar um strák sem styður við bakið á systur sinni með því að ræna frá efnuðum gestum skíðasvæðisins. Barn að ofan er önnur mynd Ursulu Meier í fullri lengd. Fyrri mynd Meier, Home, hlaut afbragðs viðtökur og vann til fjölmargra verðlauna á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum og Barn að ofan er á góðri leið með að bæta árangur hennar.

 

MYNDIR UM HEIMILISOFBELDI (Í SAMSTARFI VIÐ UN WOMEN)

 

Tyrannosaur (Skemmd epli)

Bretland, 2011. Leikstjóri: Paddy Considine. 92 mín.

Þessi magnaða og afar áhrifamikla mynd segir af ekklinum Jósef sem er atvinnulaus og þjakaður af ofbeldishneigð og reiði sem er að leggja líf hans í rúst. Hann þráir ekkert heitar en að breyta lífi sínu en sér ekki hvernig. Jósef kynnist Hönnu sem starfar í búð sem rekin er á vegum hjálparsamtaka í hverfinu. Með þeim takast góð kynni og Jósef byrjar að eygja von um að geta breytt lífi sínu til betri vegar. Hanna virðist heilbrigð og kærleiksrík kona sem iðkar trú sína og vill öllum vel en hún býr yfir þrúgandi leyndarmáli sem gæti orðið til að draga Jósef aftur til fyrri hátta. Tyrannosaur er fyrsta mynd hins kunna breska leikara Paddy Considine (Last Resort, 24hr Party People, In America) og hefur hlotið hátt á þriðja tug verðlauna víða um heim, þar á meðal á Sundance hátíðinni, BAFTA verðlaununum, og British Independent Film Awards. Með aðalhlutverkin fara Peter Mullan og Olivia Colman, sem bæði hafa verið marglofuð og verðlaunuð fyrir frammistöðu sína í myndinni.

 

Die Fremde (Hin útskúfaða / When We Leave)

Þýskaland, 2010. Leikstjóri: Feo Aladag. 119 mín.

Umay er ung kona af tyrkneskum uppruna sem berst fyrir því að fá að lifa sjálfstæðu lífi í Þýskalandi gegn vilja fjölskyldu sinnar. Barátta hennar leiðir til mikilla átaka innan fjölskyldunnar og setur líf hennar í hættu. Myndin hefur sópað til sín á fjórða tug verðlauna á fjölmörgum af stærstu og virtustu kvikmyndahátíðum heims. Hún var m.a. valin besta myndin á Þýsku kvikmyndaverðlaununum auk þess sem hún fékk verðlaun fyrir besta handritið, bestu kvikmyndatöku, bestu klippingu, bestu tónlistina og bestu leikkonu (Sibel Kekilli).

 

THEO ANGELOPOULOS: ÞRÍLEIKUR UM ÞÖGNINA

Theodoros Angelopoulos (1935-2012) var án nokkurs efa einn merkasti kvikmyndaleikstjóri Evrópu á ofanverðri tuttugustu öldinni. Hann þróaði með sér einstakan myndstíl sem einkenndist af löngum, flóknum en afar nákvæmlega unnum senum. Útkoman var ekki aðeins seiðandi og djúpskreið heldur og sérstaklega áhrifamikil. Leiðarstef í verkum hans voru gjarnan ferðalangar, flóttinn frá heimalandinu og endurkoma, auk sögu Grikklands á tuttugustu öldinni. Þagnarþríleikurinn svokallaði kemur fram um miðbik ferils Angelopoulos. Myndirnar eru Ferðin til Kýþeru (1984), Býflugnabóndinn (1986) og Landslag í þoku (1988). Tvær þær fyrstnefndu eru tragískar lýsingar á hugsjónafólki sem glatað hefur málstaðnum, sú síðasta lýsir örvæntingarfullu Grikklandi sem ákaft leitar sáluhjálpar annarsstaðar.

Taxidi sta Kythira (Ferðin til Kýþeru / Voyage to Cythera)

 

Grikkland1984Leikstjóri: Theo Angelopoulos. 120 mín.

Gamall kommúnisti snýr aftur til Grikklands eftir 32 ára dvöl í Sovétríkjunum. Staðan í Grikklandi er hins vegar alls ekki eins og hann hafði vonast eftir. Ferðin til Kýþeru vann til verðlauna fyrir besta handrit á kvikmyndahátíðinni í Cannes auk þess sem hún fékk sérstaka viðurkenningu kvikmyndagagnrýnenda (FIPRESCI Prize) á hátíðinni. Þá var hún jafnframt tilnefnd sem besta myndin.

O melissokomos (Býflugnabóndinn / The Beekeeper)

 

Grikkland, 1986. Leikstjóri: Theo Angelopoulos. 122 mín.

Býflugnabóndinn Spiros ferðast frá Norður-Grikklandi til Suður-Grikklands með býflugurnar sýnar til að mæta vorinu. Myndin hlaut frábærar viðtökur gagnrýenda á sínum tíma og var m.a. tilnefnd sem besta myndin á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

 

Topio stin omichli (Landslag í þoku / Landscape in the Mist)

Grikkland, 1988Leikstjóri: Theo Angelopoulos. 127 mín.

Vegamynd um leit tveggja ungmenna að föður sínum sem á, samkvæmt móður þeirra, að eiga heima í Þýskalandi. Þráhyggja barnanna gagnvart þessari föðurímynd sinni leiðir þau hins vegar ekki aðeins í ferðalag um Grikkland heldur einnig að mörkum æsku og fullorðinsára.Landslag í þoku er margverðlaunuð mynd sem vann m.a. til verðlauna sem besta kvikmyndin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum og á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

Öllum boðið á opnun

Hvorki meira né minna en öllum landsmönnum verður boðið að vera við opnun hátíðarinnar þann 16. nóvember kl. 20, eða á meðan húsrúm leyfir.