Bestu (og verstu) salirnir á höfuðborgarsvæðinu

Það er engu líkt að sækja kvikmyndahús og njóta magnaðrar bíómyndar í bíósal eins og oft er til ætlast. Það snýst vissulega ekki aðeins upplifunin um stærð tjaldsins heldur almenn gæði og þægindi salarins.

En skoðum hvernig salirnir á höfuðborgarsvæðinu raðast upp, frá þeim versta til hins besta, en það er Heimir Bjarnason kvikmyndagerðarmaður sem skrifar samantektina. Hann fær orðið.


Kvikmyndahús á Íslandi eru með þeim betri í heiminum. Undanfarin ár hafa miklar breytingar átt sér stað. Það virðist sem samkeppnin milli kvikmyndahúsanna sé ekki lengur um úrval kvikmynda í sýningu heldur aðstöðuna sjálfa. Hver býður upp á bestu upplifunina?

Þess vegna er nú kjörið tækifæri til að uppfæra lista sem ég útbjó árið 2020. Nýtt botnsæti, hástökkvarar og mikill hiti á toppnum.

Byrjum á botninum…

29. Háskólabíó – Salur 3

Þrátt fyrir titilinn “verstu og bestu salirnir” þá tek ég fram að mér finnst enginn salur á Íslandi slæmur. Þeir eru bara misgóðir. Ég hef t.d. skemmt mér konunglega í þessum sal…. en þetta er fyrirlestrarsalur, ekki bíósalur. Því miður. Tjaldið sem kemur rúllandi niður minnir mig á glærukynningar í grunnskóla.

Eftirminnileg bíóferð: The Ladykillers. Ég var aðeins of ungur fyrir myndina og fannst eins og hún væri eitthvað sem ég átti ekki að sjá.


28. Sambíó Álfabakka – Salur B

Fyrrum “versti” salur höfuðborgarsvæðisins færir sig upp um einn. Fáðu þér sæti fremst og þetta er bara fínt. Salurinn er samt of langur og án halla.

Eftirminnileg bíóferð: The Exorcist. Ég var einn í salnum. Spooky.


27. Háskólabíó – Salur 2

Það er alveg sama hvað þeir segja, stærð skiptir máli. Þess vegna fær þessi að fara fyrir ofan sal 3. Fyrirlestrarsalur samt.

Eftirminnileg bíóferð: Harry Potter 4. Ellilífseyrisþegar fyrir aftan mig sem höfðu ekki séð neina Harry Potter mynd eyddu allri myndinni í að pússla saman hvað væri í gangi.


26. Sambíó Egilshöll – Salur 4

Flottari útgáfa af sal B í Álfabakka. Hann er of langur. Tjaldið er of hátt uppi. Hljóðkerfið er samt mjög fínt og sætin þægileg.

Eftirminnileg bíóferð: Hereditary. Ég var þunnur og íhugaði sterklega að yfirgefa bíóið eftir ákveðið móment með ljósastaur. Ég þraukaði samt og hef verið andlega skemmdur síðan.


25. Sambíó Kringlunni – Salur 2

Nú kemur smá ruglingur. Þeir breyttu númerunum á sölunum. Þetta er minnsti salurinn sem var einu sinni 3. Maður finnur aðeins til í hálsinum á því að horfa upp á tjaldið í 2 tíma en þetta er fínn salur. Ég er ekki viss hvort sætunum hafi verið skipt út en það fór vel um mig í seinustu bíóferð.

Eftirminnileg bíóferð: The Incredibles. Ekkert spes sem gerðist, þetta er bara svo góð mynd.


24. Smárabíó – Salur 5

Ég hef gaman að þessu almennu sci-fi Smárabíó-lúkki með bláu ljósunum og öllu því. Salurinn sjálfur er allt-í-læ. Hann gerir það sem þú ætlast til af honum.

Eftirminnileg bíóferð: Kona fer í stríð. Það var mikill stemmari í salnum.


23. Bíó Paradís – Salur 2

Sísti salurinn í Paradísinni. Ég viðurkenni að kannski er ég bara kominn með leið á honum þar sem ég virðist ALLTAF enda hér þegar ég fer í Bíó Paradís. Það hlýtur samt að vera eitthvað “off” við salinn. Ég hef nefnilega upplifað sumar myndir eins og “Toni Erdmann”, “Parasite” o.fl í öðrum sölum bíósins og það er undantekningarlaust betri stemning þar. Tilviljun? Kannski. Er ég að ganga of langt í bíónördahugsunum? Bókað.

Eftirminnileg bíóferð: The Square. Hljóðið datt út og við sátum öll kyrr í tvær mínútur, algjörlega meðvirk. Þeir sem hafa séð myndina fatta vonandi hvers vegna það er athyglisvert.


22. Sambíó Álfabakka – Salur 2

Ég hljóma eins og rispuð plata en tjaldið er of hátt uppi. Fínasti salir þrátt fyrir það en ég myndi persónulega ekki sjá stórar hasarmyndir hér.

Eftirminnileg bíóferð: The Way Back. Fyrsta bíómyndin sem ég sá eftir að bíóhús opnuðu aftur eftir fyrstu bylgju Covid. Djöfull var næs að fá bíóið aftur.


21. Háskólabíó – Salur 1 

Stærð skiptir máli, muniði?

Eftirminnileg bíóferð: Evil Dead (2013). Eina myndin með 18 ára aldurstakmarki sem ég hef farið á. Eru þeir alveg hættir með þann stimpil? Við þurftum að ljúga okkur til um aldur því á þessum tíma vorum við … 17 ára!


20. Sambíó Álfabakka – Salur 1

Ég er orðinn mun hrifnari af Álfabakka síðan ég skrifaði seinasta listann. Það er samt meira aðdáun á bíóinu í heild. Salur 1 er stór og tignarlegur salur sem mér finnst alltaf gaman að heimsækja. Hvar er samt hallinn? Halló? Það ættu að vera hæðartakmörk. Þeir sem eru yfir 180 sm sitja aftast í salnum svo við litla fólkið getum séð tjaldið.

Eftirminnileg bíóferð: World Trade Center. Þarna byrjaði ástin mín á Nicolas Cage.


19. Laugarásbíó – Salur B

Lítill. Kósý. Laugarásbíó er hverfisbíóið og í þessum sal hef ég líklega átt mínar skemmtilegustu bíóferðir. Ég get samt ekki sett salinn sjálfan hærra en þetta. Næs sæti!

Eftirminnileg bíóferð: Borat. Troðfullur salur öskurhló í 90 mínútur. Nú virðist allt grínið vera á streymisveitunum en getum við plís fengið fleiri grínmyndir í bíó?


18. Smárabíó – Salur 4

Sjarminn við Álfabakka er hvað allir salirnir eru öðruvísi. Smárabíó keyrir á sömu hönnun í mismunandi stærðarhlutföllum (og mismunandi sætum). Kosturinn við það? Ef þú fílar einn salinn, þá fílarðu alla. Góður salur.

Eftirminnileg bíóferð: Date Movie. Ég var á réttum aldri á réttum stað…


17. Sambíó Kringlunni – Salur 3

Miðjusalurinn. Ágætur salur með fína breidd. Af einhverjum ástæðum finnst mér þetta hinn fullkomni deit-salur. Meikar það eitthvað sens?

Eftirminnileg bíóferð: A Quiet Place. Það var dauðaþögn allan tímann og í lok myndarinnar sá ég að flestir popppokarnir voru enn fullir.


16. Háskólabíó – Salur 4

Guilty-pleasure salurinn minn. Þetta er eini salurinn (í notkun) í Háskólabíó sem er proper bíósalur.

Eftirminnileg bíóferð: Fast Five. Fólkið sem sat fyrir framan mig hafði greinilega aldrei á ævinni séð bíómynd áður. Þau voru afar spennt yfir ÖLLU sem gerðist og það smitaðist yfir á mig.


15. Sambíó Álfabakka – Salur A
Flottur halli. Gott andrúmsloft. 90’s stemning. Hvað viltu meira?

Eftirminnileg bíóferð: Seinustu tvær mínútur Fant4stic Four (2015). Ég vann í bíóinu og sá þessar tvær mínútur aftur og aftur og aftur þegar ég fór inn að þrífa. Svo vont!


14. Háskólabíó – Stóri salur

Það fara engar almennar sýningar fram í þessum sal en ég vildi samt minnast á hann. Hljóðið er… ekki frábært. Sætin eru betri í öðrum bíósölum. Það er samt eitthvað við salinn. Stærðin, sagan, lúkkið. Að sjá mynd í þessum sal er upplifun.

Eftirminnileg bíóferð: Vonarstræti.


13. Smárabíó – LÚXUS

Smá fyrirvari… ég er ekki mikið fyrir Lúxus-sali yfir höfuð. Ég fer í bíó til þess að upplifa bíómynd með öðrum, helst í troðfullum sal þar sem við situm saman öxl í öxl. Fyrir þá sem vilja Lúxusinn er þetta fínasti salur. Plús, þú getur fengið þér bjór.

Eftirminnileg bíóferð: Hitman. Game-tíví forsýning þar sem allir þurftu að mæta klæddir eins og Hitman karakterinn. Þetta leit út eins og eitthvað költ.


12. Bíó Paradís – Salur 1

Flottur salur svo lengi sem þú færð þér sæti framarlega. Nýja (held ég) hljóðkerfið er geggjað. Smá hliðarspor frá salnum sjálfum – djöfull er Bíó Paradís að lúkka eftir breytingarnar.

Eftirminnileg bíóferð: The Rocky Horror Picture Show. Alltaf jafn gaman.


11. Sambíó Álfabakka – VIP

Það sem mér finnst gott við þennan VIP sal er nálægðin við tjaldið. Svo eru fríar áfyllingar á poppi og gosi. Það finnst mér alveg jafn spennandi í dag og þegar ég heimsótti salinn fyrst, 8 ára. En hverjum DATT Í HUG að setja nudd í stólana? Bzzzzt-hljóðið og titringurinn frá næsta stól gerir það erfiðara að detta inní góða mynd. Blessunarlega hef ég bara einu sinni lent í því að einhver hafði kveikt á þessu.

Eftirminnileg bíóferð: Ocean’s Twelve. Fyrsta skiptið mitt í VIP sal. Svo er myndin sjálf líka vanmetin.


10. Bíó Paradís – Salur 3
Uppáhalds salurinn minn í Paradís. Hann er mjög lítill en þjónar sínum tilgangi fullkomlega.

Eftirminnileg bíóferð: Toni Erdmann. Amma mín er með rosalega smitandi hlátur. Hún byrjaði að hlægja eftir tvær mínútur og við hin í salnum áttum ekki breik eftir það. Það var hlegið í tvo og hálfan tíma non-stop.


9. Sambíó Kringlunni – Salur 1

Góður salur með þægilegum sætum. Einhverra hluta vegna ekkert sérlega eftirminnilegur. Það er samt algjört stuð að vera með bíó í Kringlunni.

Eftirminnileg bíóferð: Miðnætursýning á Kick-Ass. Þar hélt Nicolas Cage ástin mín áfram að blómstra.


8. Laugarásbíó – Salur A

Góð nálgun á miðlungsstærðar bíósal. Tjaldið fyllir út vegginn og sætin eru mjög þægileg. Mjög góður salur.

Eftirminnileg bíóferð: Allt of margar myndir. Eiginlega allt frá 2006-2012.


7. Smárabíó – Salur 2
Sama hönnun, bara stærri- og það virkar!

Eftirminnileg bíóferð: Shadow in the Cloud. Veit ekki enn hvort þetta hafi verið alvöru mynd sem kom út eða draumur sem ég átti…


5.-6. Sambíó Egilshöll – Salur 2 & 3
Pottþéttir miðjusalir fyrir þá sem vilja að tjaldið fylli sjónsviðið.

Eftirminnileg bíóferð: Einhverra hluta vegna man ég bara eftir Ambulance.


4. Sambíó Álfabakka – Salur 3

Einn af mínum allra uppáhalds. Litli salurinn undir stigunum sem leynir á sér. Hvert einasta sæti í salnum er gott. Hljóðið er fínt. Hvað get ég sagt meira, þetta er bara mjög heillandi salur.

Eftirminnileg bíóferð: Jackass 2. Múgæsingurinn og troðningurinn þegar að hurðin opnaðist er minning sem ég mun aldrei gleyma.


3. Sambíó Egilshöll – Salur 1

Ég átti erfitt með að raða í þrjú efstu sætin. Þetta eru allt frábærir salir með sína kosti. Egilshöllin er risinn. Þú toppar ekki þessa tjaldstærð. Fyrir þá sem vilja að myndin gleypi sig alveg þá er Egilshöll besti valkosturinn.

Eftirminnileg bíóferð: No Time To Die.


2. Smárabíó – MAX

Þessi salur var mun neðar á seinasta listanum mínum. Ástæðan fyrir því voru tvær bíóferðir í röð þar sem hljóðið var lágt stillt og það vantaði kraftinn. Þau vandamál eru svo sannarlega úr sögunni í dag. Ég þori nánast að fullyrða að hljóðkerfið hér sé það besta á Íslandi. Myndgæðin eru einnig uppá tíu. Mér finnst tjaldið samt of langt frá mér. Það er þó lítill galli þegar allt hitt er til fyrirmyndar.

Eftirminnileg bíóferð: Top Gun: Maverick. Þarna fattaði ég endanlega hvað hljóðkerfið er klikkað.


1. Laugarásbíó – AXL

Egilshöll og Smárabíó eru óneitanlega frábær bíó. AXL salurinn í Laugarásbíó hefur samt allt sem ég vil. Stóra tjaldið sem umvefur mann. Hljóðið sem hristir mann til. Dolby Atmos intró-ið er jafn skemmtilegt í hvert einasta skipti. Að mínu mati er AXL sá allra besti en mér finnst frábært að öll bíóin séu í samkeppni um að vera best. Það er win-win fyrir okkur áhorfendur.

Eftirminnileg bíóferð: Crank. Smyglaði mér inn þegar ég var 10 ára. Það var lífsreynsla, vægast sagt.

Sjá einnig: Þrot í nærmynd: Krufning í þremur hlutum