Jude Law er ekki við eina fjölina felldur. Hann er nú orðaður við mörg hlutverk í mörgum myndum, og eitt af þeim er The Good Shepherd þar sem hann myndi leika aðalhlutverkið á móti Robert De Niro. Myndin myndi fjalla um 40 ára sögu CIA, sem er bandaríska leyniþjónustan, í gegnum augu eins af eldri útsendurum hennar, en handrit myndarinnar var skrifað af Eric Roth ( Forrest Gump ). Ef af verkefninu yrði myndi De Niro sjálfur leikstýra myndinni, og hún yrði framleidd af honum í gegnum Tribeca framleiðslufyrirtæki hans. Ásamt honum myndi hinn sögufrægi leikstjóri Francis Ford Coppola ( The Godfather ) einnig koma við sögu við framleiðslu á myndinni.

