Stórstjarnan Jim Carrey er sífellt að leita að þeirri mynd sem mun færa honum óskarsverðlaunin eftirsóttu fyrir besta leik. Akademían hefur sífellt litið framhjá honum, þrátt fyrir að hann hafi oft sýnt góðan leik, sbr. Man on the Moon og The Truman Show. Enn ein tilraunin hjá honum í þessa áttina er að líta dagsins ljós, en hann hefur skrifað undir samning þess efnis að framleiða og leika aðalhlutverkið í kvikmyndinni Children Of The Dust Bowl. Fjallar hún um húsvörð í skóla einum í Oklahoma, sem byrjar að kenna börnum sem neyðst hafa til þess að flýja hina gríðarlegu sandstorma sem herja á fylkið.

