Ratner líklega með Superman

Leikstjórinn Brett Ratner ( Rush Hour ) er nú líklegastur til þess að búa loksins til Superman mynd. Nánast allir í Hollywood hafa verið orðaðir við nýja Superman mynd undanfarin ár (seinast þeir McG og Wolfgang Petersen ), en alltaf hefur eitthvað komið upp sem hefur gert það að verkum að aldrei hefur raunveruleg framleiðsla getað hafist. Meðan Ratner hefur verið undanfarið að kynna nýjustu kvikmynd sína, Red Dragon, hefur hann einnig látið út úr sér stór orð um það að samningar hafi náðst um það að hann sé að fara að leikstýra kvikmyndinni Superman: The Last Son Of Krypton. Ekki nóg með það, heldur að stórleikarinn Anthony Hopkins (sem vann með honum að Red Dragon) hafi samþykkt að taka að sér hlutverk Jor-El, föður Superman, og að Superman verði leikinn af óþekktum leikara. Ratner tók víst að sér leikstjórnarhlutverkið eftir að hafa orðið gríðarlega hrifinn af handritinu sem handritshöfundurinn JJ Abrams skrifaði fyrir myndina. Undirbúningur fyrir myndina er þegar hafin, og ráðgert er að tökur hefjist eftir um það bil 9 mánuði.