Í tilefni af því að draugabanamyndin Ghostbusters: Frozen Empire er komin í bíó leitaði Kvikmyndir.is til Sálarrannsóknarfélags Íslands til að kanna sannleiksgildi myndarinnar. Eins og flestir ættu að vita ganga Ghostbusters kvikmyndirnar, sem eru fimm að tölu, út á baráttu svokallaðra Draugabana við vofur og aðrar forynjur sem leika lausum hala, skelfa fólk og valda ýmsum óskunda.
Fyrsta spurningin til Sálarrannsóknarfélagsins var hvort að draugar væru til í alvörunni. Við því fékkst einfalt svar; Já, þeir eru til í alvörunni.
Þá vildu kvikmyndir.is fá að vita hvort að Sálarrannsóknarfélagið fengi til sín erindi frá fólki sem séð hefur drauga/framliðið fólk eða verur aðrar. Aftur var svarið já.
Þegar spurt var hvort að félagið tæki að sér að hjálpa fólki að losna við drauga – eða læra að lifa með þeim, segir Sálarrannsóknarfélagið að það aðstoði fólk við að losna við áreiti sem það finnur fyrir og einnig að vinna með þá orku sem það er að finna í umhverfi sínu. Þetta er gert í einkatímum eða á námskeiðum.
Ætlar að sjá nýju myndina
Um það hvort að viðmælandinn hafði séð Ghostbusters kvikmynd og hvernig honum hefði líkað hún var svarið að hann hafði séð slíka mynd og stefndi að því að sjá nýju myndina.
Að lokum spurðu kvikmyndir.is hvort það væri fullt starf fyrir marga á Íslandi í dag að vera miðill.
Svarið er að margir miðlar landsins eru að vinna við þetta að hluta en nokkrir starfa við fagið eingöngu.
Það er því ljóst af ofangreindu að einhverssonar íslenskir „draugabanar“ eru til. Því má óhikað hvetja fólk til að leita til Sálarrannsóknarfélagsins ef það verður fyrir ónæði af völdum drauga eða vill fræðast meira um fyrirbærið.