Einn af frægustu James Bond bílunum, hinn sérútbúni og silfurlitaði Aston Martin, sem Sean Connery notaði fyrst í James Bond myndinni Goldfinger, var boðinn upp í síðustu viku í London og fengust litlar 2,6 milljónir sterlingspunda fyrir skrjóðinn, eða tæpar 460 millljónir íslenskra króna.
Bílilnn er búinn sæti sem getur skotið manni út úr bílnum, vélbyssum, númeraplötum sem snúast og fleiri njósnatólum sem gætu komið sér vel í umferðinni hér á Íslandi.
Búist hafði verið við að hærra verð fengist fyrir bílinn, eða 3,5 milljónir punda.
„Þetta er eini alvöru 007 James Bond bíllinn,“ sagði Mick Walsh, ritstjóri Classic and Sports Car tímaritsins.
Hann sagði að sú staðreynd að bíllinn hefði aldrei verið boðinn upp áður, vekti mikinn áhuga hjá söfnurum. „Hann hefur aldrei verið boðinn til kaups áður, og fyrir aðdáendur gamalla bíla, þá er gaman að sjá eitthvað nýtt á markaðnum.“
Hann telur í samtali við AP fréttastofuna að það væri ekki ólíklegt að bíllinn endaði á safni þar sem almenningur gæti komið og séð hann.
Höfundur James Bond bókanna, Ian Flemming, lét Bond upprunalega aka Bentley bíl, en þegar byrjað var að kvikmynda bækurnar, þá vildu framleiðendur frekar nota Aston Martin, sem á þessum tíma átti aðallega í samkeppni við Jaguar E, á breska og ameríska markaðnum.
Bíllinn var bæði notaður í Goldfinger og Thunderball.
Notkun bílsins í Bond myndunum reyndist gríðarlega góð auglýsing fyrir framleiðanda bílsins, þó að bíllinn sem var handsmíðaður, hafi reynst of dýr fyrir flesta áhugasama kaupendur.
Hér að neðan sést Bond fá bílinn fyrst í hendur: