Óskar heiðrar Bond

James Bond kvikmyndir verða í heiðurssæti á Óskarsverðlaunahátíðinni í næsta mánuði í tilefni af því að myndirnar eiga 50 ára afmæli um þessar mundir.

Bond myndir hafa sjálfar aðeins einu sinni unnið Óskarsverðlaun, en það þýðir þó ekki að myndirnar séu ekki merkilegar í kvikmyndasögunni. Bæði er það ótrúlegt afrek að kvikmyndasería sé svo lífsseig, og að hún njóti jafn mikilla vinsælda og raun ber vitni.

„Við erum ánægð með að hafa sérstakan lið í dagskránni til heiðurs Bond myndum á 50 ára afmæli þeirra,“ segja framleiðendur hátíðarinnar, Craig Zadan og Neil Meron, í yfirlýsingu.

Fyrsta Bond myndin var Dr. No og var hún frumsýnd árið 1962. Myndirnar hafa síðan orðið lífsseigasta kvikmyndasería sögunnar.

Nýjasta myndin, Skyfall, er númer 23 í röðinni. Í henni leikur Daniel Craig spæjarann James Bond 007, en myndin er að slá aðsóknarmet víða um heim. Skyfall hefur almennt hlotið góðar viðtökur almennings og gagnrýnenda, og hafa menn verið að gæla við að Skyfall gæti hlotið eina til tvær tilnefningar til Óskarsverðlauna þegar tilnefningar til verðlaunanna verða tilkynntar næsta fimmtudag, 10. janúar.

Í gegnum árin hafa nokkrar Bond myndir verið tilnefndar til Óskarsverðlaunanna, en yfirleitt í minniháttar flokkum, eins og fyrir tæknibrellur eða annað.  Nú í vikunni gerðist það í fyrsta sinn að Bond mynd, Skyfall, var valin á stuttlista yfir tilnefndar myndir hjá the Producers Guild of America, PGA, og er þar í hópi með myndum eins og Lincoln og Argo.

Sögulega séð þá hafa 16 myndir sem unnið hafa PGA verðlaun sem besta mynd unnið Óskarinn einnig á síðustu 23 árum. PGA verðlaunin verða tilkynnt þann 26. janúar nk.

Adele gæti unnið

Það búast þó fæstir við því að Skyfall vinni nein meiriháttar Óskarsverðlaun, en þó hafa menn verið að spá því að myndin gæti unnið verðlaunin fyrir besta lag í bíómynd, lagið Skyfall með bresku söngkonunni Adele.

Árið 1964 vann Bond myndin Goldfinger Óskarsverðlaunin fyrir hljóðbrellur, og árið þar á eftir vann Bond sín önnur verðlaun, fyrir tæknibrellur, í myndinni Thunderball.

Óskarsverðlaunin verða afhent þann 24. febrúar nk. í Dolby leikhúsinu í Hollywood. Athöfninni er sjónvarpað beint til meira en 225 landa.

Hlustaðu á Adele syngja Skyfall hér að neðan:

 

Heldur þú að Skyfall eigi möguleika á Óskarsverðlaunum?