Áttu sígarettu? er það fyrsta sem hann segir

Todd Phillips leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi Joker: Folie à Deux, sem kemur í bíó núna á fimmtudaginn, segir spurður að því afhverju áhorfendur hafi tengt svona sterkt við Arthur Fleck í fyrri myndinni og hvernig vinna við þessa mynd hófst eftir velgengni hinnar, að kvikmyndir séu spegill fyrir samfélagið. “Ég held að það hafi verið meinið í fyrstu kvikmyndinni, alveg pottþétt. Fyrsta myndin sló verulega í gegn, hún var eins og hvirfilbylur. Það var mjög gaman að upplifa það, þannig að það tók langan tíma fyrir mann að jafna sig. Scott Silver [meðhöfundur handrits] og ég ræddum um það í síma hvað við ættum að gera ef tækifærið til að gera framhaldsmynd kæmi, og svo þróaðist það hægt og sígandi.”

En hvað voru hann og Silver að hugsa sem þemu fyrir myndina, þegar þeir voru að byrja að þreifa fyrir sér varðandi söguna …

Passaði tímanum

“Ég held að þema fyrri myndarinnar hafi passað vel tímanum sem hún var frumsýnd á. Og við byrjuðum einmitt að ræða þemu í upphafi vinnunnar núna. Þú ræðir ekki uppbyggingu, og jafnvel í framhaldsmynd, þá ertu ekki að tala svo mikið um persónur í byrjun, því við þekkjum Arthur, þannig að þemu eru aðalmálið, hvað myndi hljóma rétt, eða hvert við gætum vonast eftir að vera að fara.

Í fyrstu myndinni segir Arthur; “Er það bara ég eða er allt að verða bandbrálað hérna úti?,” sem var eins konar upphaf síðustu myndar. Og ég held að ef þú horfir á hana, þá segirðu með sjálfum þér, “Nei, það ert bara þú.” Og í þessari mynd, nú, ég veit að persónan segir það ekki upphátt, en við vorum að hugsa, “Það sem heimurinn þarfnast í dag er ást.” Og það var ákveðið fyrsta skref í ritun handritsins.”

En hvernig byggðu þeir á fyrstu myndinni til að skapa eitthvað nýtt núna?

“Við skoðuðum hvað var gott í fyrstu myndinni, og eitt af því eru fantasíur Arthurs. Þannig að það að hafa það tól handbært hjálpaði til við að láta okkur trúa að við gætum gert allt í þessari nýju mynd.”

Hver er maður í raun?

Um söguna og almennt þema myndarinnar segir Phillips:

“Það er erfitt að útskýra myndina án þess að fara ofaní smáatriði, en í grunninn, þá er þetta saga um það hver maður er. Þetta er saga um það hver Arthur Fleck er og hver Joker er, a.m.k. í hans eigin augum. Og hvað það þýðir að horfast í augu við sitt eigið sjálf og hver maður er í raun? Og það er það sem hann þarf að gera að lokum. Ég held að myndin gefi Arthur algjörlega mun meiri von en sú fyrri.
Fyrsta myndin, á skrýtinn hátt, var svipuð þemalega séð, sérstaklega hvað varðar átökin milli Arthurs og skuggasjálfs hans, sem var þessi hugmynd um að við göngum öll með grímu í lífinu, og það sem gerist þegar þú tekur grímuna niður og verður raunverulega þú sjálfur.
Í tilfelli Arthurs, þá snerist það um að setja upp grímuna – sem ruglar allt – það fékk hans raunverulega sjálf til að spretta fram.”

Joker: Folie à Deux (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn5.2
Rotten tomatoes einkunn 32%

Hinn misheppnaði grínísti Arthur Fleck glímir áfram við tvöfalda sjálfsmynd sína og hittir draumadísina Harley Quinn á Arkham sjúkrahúsinu. Þar finnur hann einnig tengingu við tónlistina sem hefur alltaf hljómað innra með honum. ...

Um það hvar við hittum Arthur fyrir í upphafi Joker: Folie À Deux:

“Við rifjum upp kynnin við hann. Hann er augljóslega mjög lyfjaður af stofnuninni sem hann dvelur á. Við vildum að hann væri úr sambandi við raunveruleikann og tengdi ekki í raun fyrr en hann sér persónu Lady Gaga, Lee. Þannig að það passaði að láta hann ekki tala. Í raun og veru er fyrsta lína myndarinnar frá honum: “Áttu sígarettu?” Sem okkur fannst passa vel.

Phillips segir það óljóst hve lengi Arthur hefur dvalið á Arkham hælinu þegar við hittum hann á ný, en mögulega í tvö ár. “Við ræddum það ekki svo mikið, jafnvel með Joaquin, því við vildum byrja þar sem við byrjum, ef þú skilur hvað ég á við? […] Hann er algjörlega aftengdur, hann er búinn að missa allan neista sem hann hafði í fyrri myndinni, allt fjör sem var í honum þá er farið, og við erum að hitta niðurbrotinn Arthur.”

Vildi verða horaðari

Um fyrstu viðræður við Joaquin Phoenix um undirbúning undir hlutverkið segir Phillips að Phoenix væri einbeittasti leikari sem hann þekkti. “Þannig að við töluðum snemma um þyngdartap. Ég sagði; “Sko, það er ein útgáfa af Arthur þar sem hann þarf ekki að vera jafn horaður og í fyrri myndinni, þú veist, það eru lyf og það eru engar æfingar hérna, hann labbar ekki upp stiga lengur, hann er læstur inni. En Joaquin sagði, nei, nei, nei. Hann vildi í raun verða horaðari.

Um listrænu hlið Arthurs, dansinn, segir Phillips að Arthur sé góður dansari og Joaquin geti allt. “Hann getur steppdansað, hann er með það í sér. Og Joaquin segir, Ok skoðum það, og hann vann með Michael Arnold, danshöfundi, að steppdansinum í marga mánuði … og svo sjáum við hann gera það.”