Ævintýralega máttlaus Mjallhvít

Þegar ég sé Kristen Stewart kemur oftast eitt af þrennu upp í hugann; hvatvísa, sálarlausa tíkin hún Bella Swan, leikkonan sem sýndi flotta takta í Adventureland og The Runaways eða drengjalega stelpan úr Panic Room. Áður en ég fór að sjá loksins sýnishornin úr Snow White and the Huntsman var ég alls ekki að kaupa það að einhver hefði ráðið hana í hlutverk Mjallhvítar í rándýrri Hollywood-útfærslu, og að vissu leyti er þetta eitthvað sem maður þarf að sjá til að trúa. Þegar upp kemur spurningin „hver á landi fegurst er?“ er Stewart ábyggilega sú þúsundasta sem kemur til greina. Allavega í mínu ímyndunarafli er Mjallhvít ekki með kanínutennur, strákalegt andlit, útstæð eyru og óhreyfanlegan fýlusvip, og í samanburði við hina sjóðheitu Charlize Theron lítur hún út eins og kartafla. Í besta falli er þetta myndarstúlka í réttu ljósi, og í aðeins völdum hlutverkum virkar hún prýðilega sem leikkona, en það er nokkuð sjaldgæft að mínu mati.

Snow White and the Huntsman er samt langt frá því að vera dauðadæmd einungis vegna þess að vitlaus leikkona var valin í annað titilhlutverkið, en vissulega hefur þetta slæm áhrif. Útlitskvörtun mín er þó meira bara persónuleg smámunasemi, því burtséð frá henni er hreinlega bara kolröng leikkona valin í þetta hlutverk. Ég vil samt ekki skella allri skuldinni á Stewart, alveg sama hvað Twilight-ímyndin (og sérstaklega persónan) fer mikið í taugarnar mínar. Reyndar er stelpan bara vitlaus leikkona í grunnu hlutverki, punktur! Og af helstu persónum myndarinnar er Mjallhvít sú sem er verst skrifuð. Hún fær minnstu dýptina, en þó mest að gera.

Stewart og persónusköpunin (eða skorturinn á henni frekar) er stórt vandamál því ef lykilpersónan nær litlu sambandi við áhorfandann er erfitt að halda með henni, og enn síður ef hún er svona þurr og óspennandi karakter. Það leiðir umsvifalaust til þess að maður dettur alveg út úr sögunni, eða að minnsta kosti á þeim stöðum þar sem Mjallhvít er aðalfókusinn (og augljóslega geta þeir verið nokkuð margir). Þess vegna skiptir leikaravalið á t.d. Chris Hemsworth og Theron voða miklu máli. Hemsworth fær ekta karakter til að vinna úr þótt mér hafi fundist eins og sagan sýni honum stöðugt minni áhuga því lengra sem á hana líður. Leikarinn lætur það samt ekkert stoppa sig, og gefur hann sig eins mikið fram og hann getur. Ef eitthvað, þá treður hann meira lífi í persónuna heldur en blaðið bauð upp á. Þetta náttúrulega karisma sem hann hefur mætti þó vera í stærri skammti en þar kenni ég enn og aftur efninu um.

Þessi mynd er alls ekki góð, en ég skal alveg réttlæta tilvist hennar bara vegna þess að hún er meistaralega flott æfing í tæknibrellum, sviðsmyndum og búningahönnun, og þar að auki er Charlize Theron algjörlega að gera sig sem vonda drottningin. Hún hikar aldrei við ofleikinn en hún fílar sig greinilega í hlutverkinu auk þess að líta fullkomlega út fyrir það (eitthvað sem verður aldrei hægt að segja um Juliu Roberts í Mirror Mirror). Stærsti metnaður myndarinnar liggur einmitt í öllu útlitstengdu (mínus Stewart, en gerum bara ráð fyrir því að stúdíóið hafi krafist þess að fá hana gegn vilja leikstjórans) og það er fullt af ótrúlega flottum brelluskotum eða trixum sem koma hreint óaðfinnanlega út. Eitt slíkt bragð væri meðal annars hvernig breskum eðalleikum er breytt í dvergana sjö án þess að nokkrir saumar sjáist. Þar má nefna Ian McShane, Toby Jones, Nick Frost, Bob Hoskins og Eddie Izzard (svo einhverjir séu nefndir). Þetta er kannski ekkert ný tilraun, en sjaldan hef ég séð hana heppnast eins vel og hérna.

Það eru athyglisverðir kaflar í myndinni (og örlitlir Miyazaki-taktar), en að megnu til er hún hlægilega ógrípandi, bragðlaus, húmorslaus og ófyrirgefanlega háð algengustu klisjunum (þessar stóru hvatningarræður á undan stóru bardögunum þurfa innilega á smáfríi að halda). Og ef öll myndin er æfing í flottu útliti, þá myndi ég klárlega segja að tónlistin sé æfing í músíkhefðum því þessi mynd átti skilið miklu, MIKLU flottari tónlist heldur en þessa sem hún hefur.

Snow White and the Huntsman er í besta falli aðeins betri heldur en Mirror Mirror, en myndirnar eru svo gerólíkar að þær eru varla samanburðarhæfar. Frekar minnir þessi mynd svolítið á Robin Hood útgáfuna hans Ridley Scott, nema hún hafði fullt jákvætt sem þessi hefur ekki. Hún var samt einnig stór og faglega unnin mynd á alla vegu sem færði þekkta ævintýrasögu í aðeins kaldari og fullorðinslegri búning. Báðar eru nú samt frekar bragðdaufar kökur með ómótstæðilega góðu kremi ofan á.


(5/10)