Leikarinn og grínistinn Martin Lawrence afhjúpaði í viðtali hjá Conan O’Brien að þriðja myndin um kjaftaglöðu löggurnar væri á leiðinni.
„Ég talaði við Jerry Bruckheimer í gær og hann sagði að þeir væru að vinna í handritinu. Þeir eru komnir langt á leið og þetta lítur allt mjög vel út“ sagði Lawrence eftir að O’Brien spurði hann hvort myndin yrði gerð.
Bad Boys kom út árið 1995. Framhaldsmyndin var síðan frumsýnd árið 2003. Í myndunum leika Will Smith og Lawrence lögreglumenn í Miami sem eru jafnframt bestu vinir. Annar þeirra er fjölskyldumaður fram í fingurgóma. Hinn er hinsvegar glaumgosi og piparsveinn, en saman leysa þeir upp stóra eiturlyfjahringi.
Lawrence lýsti fyrst yfir áhuga sínum á framhaldsmyndinni fyrir mánuði síðan þegar hann skrifaði færslu á Facebook-síðu sína þar sem stóð „Í dag eru 11 ár síðan Bad Boys 2 var frumsýnd. Nú er kominn tími á þá þriðju… hvað finnst þér Will Smith?“. Engar staðfestingar hafa fengist á því hvort Smith hafi áhuga á því að taka þátt við gerð myndarinnar.
Hér að neðan má sjá viðtalið (Bad Boys-umræðan byrjar í kringum 3:15).